Erlent

Íslenskur sjávarútvegur viðmiðið

Breski Íhaldsflokkurinn hefur tekið upp nýja sjávarútvegsstefnu sem meðal annars byggist á reynslu Íslendinga í sjávarútvegi. Auk þess byggjast hugmyndirnar á sjávarútvegi í Kanada, Bandaríkjunum, Noregi og í Færeyjum. Samkvæmt þessu miðast fiskveiðistjórnun meðal annars við reynsluna á sjónum í stað fyrirfram ákveðins kvótakerfis. Owen Paterson, sem fer með sjávarútvegsmál í skuggaráðuneyti Íhaldsflokksins, segir að sjávarútvegsstefna flokksins feli í sér efnahagsleg, félagsleg og umhverfisleg mistök. Hann segir að hún leiði til stórfellds brottkasts og þvingi meðal annars sjómenn til að kasta meiri dauðum fiski í hafið en þeir komi með á land og það hafi þegar valdið gríðarlegum umhverfisspjöllum í hafinu. Paterson bendir á að þetta hafi eyðilagt stóran hluta sjávarútvegarins og lagt heilu sjávarsamfélögin í rúst. Samkvæmt nýjum hugmyndum breska Íhaldsflokksins er eitt meginmarkmiðið að bæta fiskveiðistjórnunina. Lögð er áhersla á að stjórnvöld setji skýrar reglur sem miði að því að styrkja sjávarútveginn og koma á jafnvægi í umhverfi hafsins. Ný sjávaraútvegsstefna Íhaldsflokksins gerir ennfremur ráð fyrir að sérstakar staðbundnar stofnanir og fyrirtæki taki ákvarðanir á degi hverjum og beri ábyrgð á því hvernig fiskveiðistjórnun skuli háttað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×