Erlent

Ótryggt ástand í Aceh-héraði

Stjórnvöld í Indónesíu hafa bannað hjálparstarfsmönnum að fara án sérstaks leyfis inn á nokkur svæði í Aceh-héraði sem hafa orðið illa úti í hamförunum á annan dag jóla. Herinn segist ekki geta tryggt öryggi fólksins en í Aceh-héraði hefur undanfarna áratugi staðið yfir blóðug barátta stjórnarhersins og sjálfstæðissinna í héraðinu. Uppreisnarmenn hafa þegar lýst yfir einhliða vopnahléi vegna náttúruhamfaranna. Fréttamenn á staðnum segja að herinn sé að nýta ástandið til að ná aftur stjórn í Aceh-héraði. Hæstráðandi indónesíska hersins viðurkennir að þetta seinki því að hjálp berist til fólks. Svipað er uppi á teningnum á Srí Lanka. Þar hafa tamíl-tígrar barist í um tvo áratugi fyrir sjálfstæði. Stjórnvöld þar segja að ekki sé öruggt að ferðast til yfirráðasvæða tígranna og á móti saka þeir nú stjórnvöld um að koma í veg fyrir að hjálp berist þeim. Vonast var til að hamfarirnar myndu létta á spennunni á svæðinu en það hefur ekki gengið eftir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×