Erlent

Nær öruggt talið að Abbas sigri

Forsetakosningar fara fram í Palestínu í dag. Sjö manns eru í framboði en nær öruggt er talið að Mahmoud Abbas beri sigur úr býtum og taki þar með við af Jasser Arafat sem lést í nóvember. Abbas er frambjóðandi Fatah, stærstu fylkingarinnar innan Frelsissamtaka Palestínumanna (PLO). Hamas-samtökin ætla að sniðganga kosningarnar. Mustafa Barghouti er sá sem helst er talinn geta velgt Abbas undir uggum. Mustafa er skyldur uppreisnarleiðtoganum Marwans Barghouti sem situr í fangelsi fyrir hryðjuverk. Hinir fimm frambjóðendurnir eru taldir hafa litla möguleika á sigri. Alls hafa 1,8 milljónir Palestínumanna kosningarétt en ríflega milljón manns hafa skráð sig til þátttöku. Þrjú þúsund kjörstaðir eru í landinu og verður þeim lokað klukkan fimm síðdegis. Um klukkustund síðar verða birtar útgönguspár. Ísraelsk stjórnvöld hótuðu í gær að standa ekki við áður gefið loforð sitt um aukið ferðafrelsi fyrir fólk á Vesturbakkanum og Gaza sem þarf að komast á kjörstað. Ísraelar hótuðu þessu eftir að palestínskur uppreisnarmaður skaut ísraelskan hermann til bana. Töluverð ólga var í Palestínu í gær og var palestínskur lögreglumaður meðal annars skotinn til bana af ísraelskum hermanni við landamæri Ísraels. Ísraelsk stjórnvöld segja að maðurinn hafi verið kominn inn á öryggissvæði vopnaður riffli og þess vegna hafi hann verið skotinn. Abbas sagði í gær að ef hann yrði kjörinn forseti myndi hann óska eftir því að Ahmed Qurei, forsætisráðherra Palestínu, myndaði nýja stjórn. Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri grænna og BSRB, er staddur í Palestínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×