Erlent

Stjórnmál hamla hjálparstarfi

Stjórnmál hamla björgunaraðgerðum víða á hamfarasvæðunum í Suðaustur-Asíu. Heimsóknir tignarmanna dreifa athyglinni og hjálpargögn eru notuð sem vopn í innanríkisátökum. Lík finnast enn í Indónesíu þar sem skemmdirnar eru gríðarlegar og hundrað og fimm þúsund manns eru sagðir hafa látist. Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna segja örlög tugþúsunda á huldu og að fjöldi þeirra sem farist geti margfaldast eftir því sem fleiri finnast og ef ekki tekst að koma hjálpargögnum til allra um helgina. Í sumum byggðum er óttast að níutíu prósent íbúanna hafi farist. Í dag stóð til að koma neyðarhjálpargögnum til síðustu fórnarlamba flóðbylgjunnar á Srí Lanka. Talsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segja engar vísbendingar um farsóttirnar sem óttast var að brytust út. Uppbyggingarstarf er hafið sums staðar á eynni en óljóst er hvort hjálpargögn komist með eðlilegum hætti til svæða tamílskra uppreisnarmanna sem saka stjórnvöld um að nota neyðarhjálp í átökunum sem staðið hafa árum saman. Stjórnvöld neita þessu en vildu ekki heimila Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, að kynna sér ástandið á þeim svæðum sjálfur. James Wolfensohn, yfirmaður Alþjóðabankans, var á ferð með Annan og svaraði spurningum um eðli hjálparstarfs og fjárframlaga og áhrif spillingar. Hann sagði að reynsla bankans á heimsvísu væri sú að ef hjálpin væri á vegum heimamanna væru meiri líkur á að starfið færi heiðarlega fram, að því  gefnu að það væri gegnsætt því heimamenn vissu hverjir þrjótarnir væru. Frammi fyrir erfiðleikum sem þessum væri mjög mikilvægt að fela yfirvöldum á staðnum að leita lausna. Ekki væri hægt að miðstýra slíku. Wolfensohn sagði ennfremur að það væri hluti af lækningarferlinu að heimamenn tækju þátt í að skipuleggja framtíðina. Það væri mikilvægur þáttur en flókinn í ljósi sögu Srí Lanka og fyrri átaka. Nú væri gullið tækifæri til að nýta augnablikið.  Fleira hamlar hjálparstarfinu en innanríkisátök. Á eyjunum Andaman og Níkóbar kvörtuðu hjálparstarfsmenn í dag undan heimsókn Indlandsforseta en þeir segja skipulagningu heimsóknarinnar hafa dreift athygli stjórnenda starfsins og þeir ekki getað einbeitt sér að aðalatriðunum, að hjálpa fólki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×