Erlent

Al-Qaida leiðtogi gripinn í Írak

Einn af meginleiðtogum al-Qaida í Írak, Abu Ahmed, er í haldi herveldanna í Írak. Bandaríkjamenn líta á þetta sem sigur, en hafa sent fulltrúa til Íraks til að kanna ástand hersveita þar. Bandaríkjamenn leggja mikla áherslu á að uppræta sveitir al-Qaida þar, einkum að ná höfuðpaurnum Abu Musab al-Zarqawi. Abu Ahmed er sagður hafa stýrt hryðjuverkaárásum í borginni Mósúl, þar sem róstur hafa verið undanfarið. Í kjölfar þess að hann náðist tókst að handsaman annan af leiðtogum al-Qaida í Írak, Abu Marwan. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur skipað fyrrverandi hershöfðingja í Bandaríkjaher, Gary Luck, til að taka hersveitir í Írak, fjölda þeirra og þjálfun írakskra sveita til nákvæmrar skoðunar. Þetta er gert í kjölfar gagnrýni þess efnis að of fáar hersveitir séu í landinu og þær séu illa búnar til að takast á við uppreisnarmenn og skæruliða, sem virðist vaxa ásmegin. Luck hershöfðingi var áður yfirmaður bandaríska heraflans í Suður-Kóreu og ráðgjafi herforingjaráðsins. Hann á að skila Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra skýrslu um ástandið hið fyrsta. Ein þeirra leiða sem valin hefur verið til að klekkja á uppreisnarmönnum er að fangelsa þá. Margir þeirra flokkast sem erlendir bardagamenn, sem Bandaríkjamenn fullyrða að séu ekki stríðsfangar og njóti þar af leiðandi ekki verndarinnar sem Genfarsáttmálarnir veita. New York Times greinir frá því í dag að erlendum bardagamönnum í haldi Bandaríkjahers hafi fjölgað úr 140 fyrir áhlaupið á Fallujah í síðasta mánuði í 325 nú. Margir þessara fanga eru sagðir tengjast al-Qaida og hugsanlegt er að þeir verði fluttir úr landi. Bandarísk yfirvöld eiga nú þegar í nokkrum vanda með fanga í Guantanamo-herstöðinni á Kúbu og hafa sætt harðri gagnrýni vegna meðferðar þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×