Erlent

Eftirmaður Arafats valinn

Síðasti dagur kosningabaráttunnar á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna var í dag og um helgina verður eftirmaður Jassirs Arafats kjörinn. Vonir standa til að um leið lifni yfir friðarferlinu. Hálfgert vonleysi er sagt einkenna almenning, aðeins nokkrum dögum fyrir kosningarnar, og fréttaritarar segja fólk á götum úti ekki búast við tímamótum í friðarviðræðum á næstunni. Mahmoud Abbas á sigurinn næsta vísan í kosningunum, en samkvæmt könnunum nýtur hann yfirburðafylgis. Fyrir utan Abbas mælist einungis Mustafa Barghouti með verulegt fylgi. Óeinkennisklæddir, ísraelskir lögreglumenn handtóku Barghouti í morgun þar sem hann var á leið til al-Aksa moskunnar í Austur-Jerúsalem eftir að hafa haldið þar kosningafund. Barghouti sagðist hafa sýnt þeim heimild sem sýndi að hann gæti farið inn í Jerúsalem og beðist fyrir í moskunni en samt hefðu þeir handtekið þeir hann. Mahmoud Abbas hætti í kjölfarið við kosningafundi í Austur-Jerúsalem. Abbas og Barghouti hafa reynt að höfða jafnt til þeirra sem vilja harða stefnu og hörku í samskiptum við Ísrael og þeirra sem vilja beita friðsamlegri aðferðum. Báðir eru taldir hófsamir og friðarsinnar og því þykir horfa betur en oft áður fyrir botni Miðjarðarhafs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×