Erlent

Sporgöngumenn Abbas

Öruggt er talið að Mahmoud Abbas beri sigur úr býtum í forsetakosningunum í Palestínu á morgun. Sex aðrir eru þó í kjöri, þar af eru fjórir óháðir frambjóðendur. Enda þótt fylgi Mustafa Barghouti mælist aðeins 6-14 prósent í skoðanakönnunum er hann sá frambjóðandi sem helst er talinn geta velgt Abbas undir uggum. Hann er ættingi Marwans Barghouti, uppreisnarleiðtogans sem afplánar nú margfaldan lífstíðardóm fyrir hryðjuverk, en sá var af mörgum álitinn líklegasti eftirmaður Jassers Arafat. Barghouti hefur í baráttunni gefið sig út fyrir að vera maður fólksins en forysta palestínsku heimastjórnarinnar hefur löngum verið gagnrýnd fyrir að vera ekki í nógu miklum tengslum við alþýðuna. Hann segist ætla að ráðast gegn spillingu og tryggja að lög og regla ríki á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna. Hann var handtekinn og að eigin sögn misþyrmt af ísraelsku lögreglunni í desember síðastliðnum, í aðdraganda kosningabaráttunnar. Þar sem Barghouti hefur enga fjöldahreyfingu á bak við sig verður að telja útilokað að hann nái að sigra Abbas. Stjórnmálaskýrendur telja þó að björt framtíð geti beðið hans bíði hann ekki afhroð á morgun. Af öðrum frambjóðendum má nefna Bassam al-Sahli, frambjóðanda Lýðflokks Palestínumanna sem er lítil kommúnistahreyfing innan PLO. Hann hefur margsinnis mátt dúsa í fangelsi vegna þátttöku sinnar í baráttunni gegn ísraelskum stjórnvöldum. Taysir Khalid er frambjóðandi byltingarsinnaðrar marxískrar hreyfingar sem á litlu fylgi að fagna á meðal Palestínumanna. Hinir frambjóðendurnir heita Abdul Karim Shabiar, Abdul Halim al-Ashqar og Alsayd Barakah. Ekki er talið að margir muni greiða þeim atkvæði sitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×