Erlent

Karl og Camilla giftast

Áralöngum vangaveltum um framtíð Karls prins og Camillu Parker-Bowles var svarað í gær þegar Karl sendi frá sér yfirlýsingu um að þau ætli að ganga í hjónaband 8. apríl. Þau verða gefin saman við borgaralega athöfn en verða að henni lokinni viðstödd bænastund í Kapellu heilags Georgs. Camilla tekur titilinn hennar konunglega hátign hertogaynjan af Cornwall þegar hún og Karl giftast. Hún verður þó ekki drottning þegar hann verður konungur heldur verður hún prinsessa. Samband Karls og Camillu á sér langa sögu. Þau kynntust árið 1970, felldu hugi saman en fóru svo hvort sína leið. Þau endurnýjuðu ástarsamband sitt nokkrum árum eftir að Karl kvæntist Díönu prinsessu og hafa búið saman síðustu ár. Breskur almenningur brást illa við sambandi þeirra og varð Camilla ósjaldan fyrir aðkasti á götum úti. Elísabet drottning lagði blessun sína yfir fyrirhugað brúðkaup Karls og Camillu og lýsti ánægju sinni með það í yfirlýsingu. Sama gerði Tony Blair forsætisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×