Erlent

Þyrla hrapaði á flóðasvæðunum

Bandarísk þyrla með hjálpargögn hrapaði í námunda við flugvöll í Aceh-héraði í Indónesíu í nótt. Tíu manns voru um borð í þyrlunni og sluppu þeir allir með lítilsháttar meiðsli. Ekki er vitað hvað olli því að þyrlan hrapaði til jarðar en engar vísbendingar eru um að skotið hafi verið að henni að sögn hernaðaryfirvalda í Bandaríkjunum. Svæðið í kringum þyrluna var þegar girt af og verið er að leita að braki úr vélinni og vísbendingum um hvað olli slysinu. Hjálparstarf raskaðist ekki mikið þrátt fyrir óhappið en þó var neyðaraðstoð frestað í um það bil klukkutíma í nótt. Í gærkvöldi gerði öflugur eftirskjálfti upp á 6,2 á Richter vart við sig í Aceh-héraði. Fjöldi fólks flúði heimili sín vegna skjálftans en ekki er vitað til þess að neinn hafi látist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×