Erlent

Sýnilegur árangur hjálparstarfsins

Minningarathöfn stendur yfir í Stokkhólmi um þá sem létust í hamförunum í Asíu. Hjálparstarf er farið að bera sýnilegan árangur á hamfarasvæðunum og íbúar reyna hvað þeir geta að taka upp eðlilega lífshætti.  Karl Gústaf Svíakonungur hélt hjartnæma og mjög persónulega ræðu við minningarathöfnina í morgun. Þar sagðist hann óska sér að hann gæti einfaldlega sagt eins og konungarnir í ævintýrunum - að allir hefðu lifað hamingjusamir til æviloka. „En það get ég ekki. Ég er bara eins og þið hin: syrgjandi manneskja,“ sagði Karl Gústaf. Í dag hófst skólahald í Svíþjóð að nýju eftir jólafrí og í sumum héruðum Svíþjóðar má búast við því að í öðrum hverjum skóla vanti að minnsta kosti einn nemanda vegna hamfaranna í Asíu. Fimmtíu og tveir Svíar létust í hamförunum og talið er að 637 sé enn saknað þó að tölurnar þar að lútandi hafi verið nokkuð misvísandi. Á Srí Lanka hófst kennsla í nokkrum skólum í morgun í fyrsta sinn eftir hamfarirnar. Hjálparstarf er nú farið að bera sýnilegan árangur í Aceh-héraði á Súmötru sem varð hvað verst úti í flóðunum og íbúar sumir farnir að lifa eðlilegu lífi aftur að hluta, tveimur vikum eftir flóðbylgjurnar. Það er þó ljóst að uppbygging á hamfarasvæðunum mun taka taka langan tíma og lýsti Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, því yfir að langtímahjálp til uppbyggingar yrði veitt á hamfarasvæðinu. Í gærkvöldi gerði öflugur skjálfti upp á 6,2 á Richter gerði vart við sig í Aceh-héraði. Fjöldi fólks flúði heimili sín vegna skjálftans en ekki er vitað til þess að neinn hafi látist. Bandarísk þyrla með hjálpargögn hrapaði í námunda við flugvöll í Aceh-héraði í nótt. Tíu manns voru um borð í þyrlunni og sluppu þeir allir með lítilsháttar meiðsli. Ekki er vitað hvað olli því að þyrlan féll til jarðar en engar vísbendingar eru um að skotið hafi verið að henni að sögn hernaðaryfirvalda í Bandaríkjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×