Innlent

Loftfar leysi Herjólf af hólmi

Hagkvæmara væri að nota loftfar til að flytja fólk og frakt til og frá Vestmannaeyjum heldur en með Herjólfi, samkvæmt könnun sem sex nemendur við Viðskiptaháskólann á Bifröst unnu í vetur. Nemarnir skoðuðu SkyCat-loftfar, sem flutt getur bíla, menn og frakt, út frá forsendum samgangna til Vestmannaeyja. Reiknað er með endurnýjun Herjólfs á sextán ára fresti og að komið verði að nýju skipi árið 2008, en nemarnir gera ráð fyrir að SkyCat-loftfar kosti um sex og hálfan milljarð króna. Farið yrði ódýrara í rekstri en Herjólfur og fljótara í förum þannig að fara mætti fleiri ferðir á dag. "Loftfarið er með fjóra hreyfla knúna dísilolíu. Að öðru leyti sér helíumfylltur belgurinn aðallega um lyftikraft loftfarsins," segja nemarnir, en það getur lent og tekið á loft bæði eins og þyrla og flugvél og þarf ekki langa flugbraut. Þá þolir loftfarið sömu veðurskilyrði og stórar breiðþotur, en þær munu mjög veðurþolnar. Áhugi er hjá nemendunum að kanna fleiri notkunarmöguleika farsins, s.s til strandflutninga, en hópurinn telur að SkyCat geti leyst af hólmi þungaflutninga á þjóðvegum landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×