Sport

Atlantic-bikarinn í Egilshöllinni

Íslandsmeistarar FH taka á móti Færeyjarmeisturum HB í Egilshöllinni kl. 17 í dag þegar keppt verður um Atlantic-bikarinn þriðja sinni en það er árlegur leikur á milli Íslands- og Færeyjameistaranna. KR og HB mættust í fyrstu tvö skiptin. KR sigraði fyrra skiptið í Frostaskjóli en HB náði fram hefndum í Færeyjum í fyrra. Fréttablaðið hafði samband við fyrirliða Íslandsmeistaranna, Heimi Guðjónsson, og spurði hann að því hvernig leikurinn leggðist í hann og hvernig ástandið væri í herbúðum Íslandsmeistaranna í dag. „Það eru allir heilir fyrir utan Sverri Garðarsson sem er meiddur. Danirnir eru allir komnir og eru klárir í slaginn," sagði Heimir en hann segist lítið sem ekkert vita um færeyska liðið annað en að 70 manns hafi fylgt liðinu til landsins. „Við eigum von á erfiðum leik enda lagði þetta lið KR að velli í fyrra og það sannfærandi. Við munum þurfa að hafa fyrir þessu." Það er farið að styttast í að Íslandsmótið hefjist og Heimir segir að svona leikir séu mjög vel þegnir á þessum tímapunkti. "Við erum alltaf að spila við sömu liðin og það er kærkomið að mæta nýjum andstæðingum. Við erum enn að slípa okkar leik enda með nýja menn í lykilstöðum og það er nokkuð verk eftir hjá okkur næsta mánuðinn," sagði Heimir en líta FH-ingar á það sem skandal tapi þeir leiknum? „Það er erfitt að segja. Við munum engu að síður leggja allt í sölurnar til þess að vinna þennan leik og við viljum að sjálfsögðu sýna að íslensk knattspyrna standi framar þeirri færeysku. Við vonum það og trúum því," sagði Heimir Guðjónsson, fyrirliði FH.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×