Erlent

Segjast ekki ráðast á Íran

Hyggi Bandaríkjamenn á innrás í Íran gætu þeir þurft að ráðast einir inn í landið. Bretar ætla sér ekki að taka þátt í hernaði gegn landinu en vilja semja við Írana um kjarnorkuvopnáætlun landsins. Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, lét taka saman 200 blaðsíðna skýrslu þar sem andstaða Breta við stríð í Íran er útlistuð. Þar eru jafnframt færð rök fyrir því að hverju frekar ætti að fara sáttaleiðina og semja við Írana um kjarnorkuáætlun stjórnvalda þar í landi. Sunday Times greinir frá skýrslunni í dag og segir að þar sé meðal annars fullyrt að sú lausn sem Bretar, Frakkar og Þjóðverjar hafi reynt sé sú vænlegasta, þ.e. samningaleiðin, og að þannig megi taka tillit til réttmætra, friðsamlegra hagsmuna Írana af því að nýta kjarnorku. Skýrslan var kynnt sama dag og Bush Bandaríkjaforseti sór embættiseið í vikunni. Bretar eru sagðir hafa nokkrar áhyggjur af því að í Washington veki skýrslan litla kátínu, og er hermt að nokkur spenna sé á milli Washington og Lundúna vegna málsins. Engu að síður segir Sunday Times að Tony Blair muni ítreka á fundum með bandarískum embættis- og stjórnmálamönnum á næstunni að Bretar hafi ekki áhuga á frekari stríðsrekstri í Miðausturlöndum. Árás á Íran væri mikil mistök, að sögn utanríkisráðherra Írans. Á fréttamannafundi í Teheran kvaðst hann jafnframt telja líkurnar á slíkri árás afar litlar nema að einhverjum væri mikið í mun að gera hernaðarleg mistök. Ráðherrann sagði yfirlýsingar bandarískra ráðamanna undanfarna daga, þess efnis að meint kjarnorkuvopnaáætlun Írans væri áhyggjuefni og að landið væri efst á gátlista stjórnvalda, væru ekkert annað en sálfræðihernaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×