Sport

FH-ingar áfram á sigurbrautinni

Leiðindaveður í Hafnarfirðinum í gær setti mark sitt á leikinn í gær, þegar FH vann verðskuldaðan sigur á Keflavík með tveimur mörkum gegn engu. Leiðindaveður var í gær áttu leikmenn beggja liða í töluverðum erfiðleikum með að hemja boltann á blautum vellinum, nema þá helst leikmenn FH sem sýndu góða spilamennsku í seinni hálfleik í gær, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. FH byrjaði leikinn af miklum krafti og tókst að skora strax á fyrstu mínútu leiksins og var þar að verki Ólafur Páll Snorrason, en hann fékk fallega sendingu inn fyrir vörnina frá Allan Borgvardt og átti ekki í neinum vandræðum með skora framhjá Ómari Jóhannssyni markverði Keflavíkur. FH hélt áfram að sækja og setti mikla pressu á Keflvíkinga í tvígang en varnarmenn Keflvíkinga stóðust álagið. Keflvíkingar náðu síðan hægt og rólega að komast inn í leikinn eftir þetta og náðu að skapa sér nokkur marktækifæri sem hefðu átt að nýtast betur. Seinni hálfleikur hófst líkt og svo fyrri, með því að FH skoraði. Í þetta skiptið var það markahrókurinn Tryggvi Guðmundsson sem skoraði eftir ágæta sendingu Ólafs Páls Snorrasonar frá hægri. Leikmenn FH náðu að spila boltanum vel sín á milli á upphafsmínútum síðari hálfleiks og sýndu að það er engin tilviljun að liðið er taplaust það sem af er Íslandsmótinu. Góð hreyfing var á liðinu og voru bakverðirnir áberandi í sóknarleiknum, sérstaklega hægra megin þar sem Guðmundur Sævarsson tók góð spretti hvað eftir annað. Keflvíkingar náðu ekki að fylgja eftir ágætri frammistöðu í fyrr hálfleik og voru alltaf skrefi á eftir spræku liði FH. Ólafur Páll Snorrason var sprækur hjá FH. "Við náðum ekki að spila nægilega vel í fyrri hálfleik. Boltinn gekk illa á milli manna. Í seinni hálfleik náðum við að láta boltan ganga betur og spiluðum ágæta knattspyrnu. Mörkin komu á góðum tíma í báðum hálfleikunum og gáfu okkur forskot til þess að byggja á." Baldur Sigurðsson var skástur Keflvíkinga, sem áttu í vök að verjast í seinni hálfleik. "Það er hræðilegt að byrja hálfleikina báða á því að fá á sig mark á fyrstu mínútu. Við náðum að spila ágætlega í fyrri hálfleik en voru alltaf skrefinu á eftir þeim í seinni hálfleik. Við verðum bara að rífa okkur upp fyrir næsta leik."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×