Sport

Átök í Árbænum

Þorlákur Árnason greindi frá því á dögunum að hann myndi hætta í lok tímabilsins með Fylki en athygli vakti að hann sagði þessa ákvörðun hafa verið tekna fyrir löngu. Eitthvað virðist hafa gerst í kjölfarið í Árbænum og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fór stjórn knattspyrnudeildarinnar fram á við meistaraflokksráðið að þeir leystu Þorlák undan samningi hið fyrsta sem var þvert gegn vilja meistaraflokksráðs og Þorláks. "Þorlákur naut stuðnings meistaraflokksráðs," sagði Ásgeir Ásgeirsson, formaður meistaraflokks, frekar daufur en hann neitaði að svara því hvort stjórn knattspyrnudeildar hefði tekið fram fyrir hendurnar á meistaraflokksráði. "Það er best að tala ekki meira um þetta." Ásgeir hefur ákveðið að láta af formennsku meistaraflokksráðs í lok sumars en aðspurður hvort ástæðan fyrir því væri ófullnægjandi vinnuumhverfi sagði Ásgeir: "Ég ætla ekkert að svara því." Sigrún Jónsdóttir, formaður knattspyrnudeildar, vildi lítið tjá sig þegar hún var spurð út í málið og óskaði eftir vinnufriði. "Ég tel ekki rétt að tjá mig neitt um þessi mál. Þetta er niðurstaða og við verðum að virða vinnubrögðin," sagði Sigrún. Ekki náðist í Þorlák Árnason í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Jón Sveinsson, sem var aðstoðarmaður Þorláks, og Sverrir Sverrisson, fyrrum leikmaður liðsins, stýra Fylki í síðustu tveim umferðum Landsbankadeildarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×