Erlent

Ótti í aðdraganda kosninga í Írak

Ótti einkennir lífið í Írak þessi dægrin, í aðdraganda frjálsra kosninga sem eiga að fara þar fram eftir rúma viku. Jón Ársæll Þórðarson er staddur þar og segir viðmælendur sína of hrædda til að fara á kjörstað. Jón Ársæll segir það fari ekki fram hjá neinum í Bagdad að kosningar séu á næsta leiti. Það séu hins vegar ekki kosningasamkomur og útfundir sem hann verði mest var við heldur óttinn og óvissa fólks um framtíðina. Fólk sé hrætt við að kjósa og fjölmargir þori ekki á kjörstað vegna þeirra ógnaraldar sem ríki í landinu. Fylgismönnum Saddams Husseins, sem áður hafi ráðið ríkjum, hafi tekist með skæruhernaði og gíslatökum að vekja slíkan ugg í brjóstum fólks að þori ekki að láta skoðanir sínar í ljós. Jón segir að víða sé búið að rífa niður allar veggmyndir og áróður í tengslum við komandi kosningar nema þær sem hvetji fólk til að kjósa ekki. Þá gangi þær sögur á götunum að andstæðingar kosninganna ætli að efna til sprengjuhernaðar um næstu helgi þar sem fólk ætli að sprengja sjálft sig í loft upp í fjölmenni til þess að valda sem mestum skaða og auka á ógnina og ringulreiðina. Innanríkisráðherra Íraks sagði á fundi fyrr í dag að allt yrði gert til að tryggja öryggi fólks á kjörstað en það kemur í hlut írakskra öryggissveita að sjá um það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×