Erlent

Listinn ekki lengur til

Listi hinna staðföstu þjóða er ekki lengur til, og því illgerlegt fyrir stjórnvöld að taka Íslendinga af honum. Auglýsing Þjóðarhreyfingarinnar í New York Times í gær virðist litla sem enga athygli hafa vakið. Á fjórða þúsund Íslendinga tók þátt í fjármögnun heilsíðuauglýsingar sem birt var í stórblaðinu New York Times í gær. Þar var írakska þjóðin beðin afsökunar á því að Ísland hefði stutt innrásina í Írak. Listinn frægi um hinar staðföstu og viljugu þjóðir, sem er helsta merki aðildar Íslands að stríðinu í Írak, er hins vegar ekki lengur til. Stöð 2 greindi frá því þegar í september að hann hefði skyndilega horfið af heimasíðu Hvíta hússins. Í viðtali við fréttaritara Reuters-fréttaþjónustunnar segir ónafngreindur heimildarmaður innan Bandaríkjastjórnar að í stað þess lista sé kominn annar listi yfir þjóðir sem leggi í raun og veru eitthvað til málanna í Írak, til dæmis hermenn. Tuttugu og átta þjóðir eru á þeim lista. Auglýsing Þjóðarhreyfingarinnar virðist ekki hafa vakið mjög mikla athygli - í það minnsta ekki hjá erlendum fjölmiðlum. Reuters sendi út eitt fréttaskeyti um málið og samkvæmt leitarvélum á Netinu hafa fjórir fréttamiðlar birt það: sjónvarpsstöðin ABC í Bandaríkjunum, samnefnd stöð í Ástralíu og annar netmiðill þar og svo síða á Indlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×