Sport

Button á ráspól í dag

Englendingurinn Jenson Button verður á ráspól þegar Formúlu 1 kappaksturinn í Montreal í Kanada hefst í dag, en hann náði bestum tíma í tímatökunni í gær. Lið Buttons, BAR, hefur ekki gengið eins vel og spáð hafði verið og því var þessi óvænti árangur liðinu mikið gleðiefni. Michael Schumacher var í öðru sæti á Ferrari bifreið sinni og Spánverjinn Fernando Alonso og Ítalinn Giancarlo Fisichella, í þriðja og fjórða sæti, en þeir aka báðir fyrir Renault. Juan Pablo Montoya hjá McLaren varð í fimmta sæti, rétt á undan Takum Sato frá BAR liðinu. Kimi Raikonen var nokkuð óvænt í sjöunda sæti í þetta skiptið, en hann hefur þótt aka vel í tímatökunum á þessu tímabili. Jacques Villeneuve, sem var á heimavelli, var í áttunda sæti, en honum hefur ekki gengið vel að undanförnu. Röðun efstu manna kom nokkuð á óvart því Button hefur ekki gengið sem skildi. Þá var íslandsvinurinn Mark Webber í fjórtánda sæti sem ekki þykir nógu gott hjá liði hans, Williams þar sem Nick Heidfeld, annar ökumaður hjá liðinu, endaði einnig neðarlega, eða í þrettánda sæti. David Coulthard náði sé ekki heldur strik en hann ekur nú fyrir Red Bull. Hann var með tólfta besta tímann í tímatökunni í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×