
Innlent
Einar Oddur styður tillögu SUS

Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist munu styðja tillögu Sambands ungra sjálfstæðismanna um að íslensk stjórnvöld hverfi frá framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ungir Sjálfstæðismenn samþykktu á þingi sínu um helgina ályktun þess efnis að hætta ætti við framboðið og hefur formaður þeirra, Borgar Þór Einarsson, lýst því yfir að hann beri fram samhljóma ályktun á landsfundi Sjálfstæðisflokksins síðar í mánuðinum. Einar Oddur hefur áður lýst sig andvígan framboði til öryggisráðsins og segist mjög glaður með ályktun ungra Sjálfstæðismanna.