Innlent

Lýtaaðgerð fyrir þúsund árum

Íslenskum konum virðist hafa verið eins umhugað um útlitið fyrir þúsund árum og nú. Fyrsta tannviðgerðin sem vitað er um að gerð hafi verið hér á landi var útlitsbætandi aðgerð. Leiða má líkur að því að hún hafi verið sársaukafyllri en nokkuð það sem núlifandi Íslendingar upplifa í stólnum hjá tannlækninum. Beinasafn var grafið upp árið 1939 við Skeljastaði í Þjórsárdal og það hefur verið rannsakað sérstaklega til að gera útttekt á tönnum fornmanna. Merkilegasti tanngarðurinn er frá því fyrri árið 1100, af konu um fertugt. Önnur framtönnin skagaði fram og hefur þótt útlitslýti. Svend Richter, lektor við tannlæknadeild Háskóla Íslands, segist viss um það að jafnvel fyrir þúsund árum hafi konur hugsað um útlit sitt í Þjórsárdalnum svo að konan hafi gripið til þess ráðs að slípa framan af tönninni. Eins og sjáist á tönninn sé stór hluti af krónu hennar horfinn. Svend segir að þetta hafi væntanlega verið gert með einhvers konar brýni eða steini og það hafi verið sársaukafullt. Konan hefur haft fulla tilfinningu í tönninni og hún verið slípuð í áföngum vegna þess hversu kvalarfullt það var. Aðspurður hvort konan hafi gert þetta sjálf segir Svend að þetta hefði verið ógjörningur nema hún hafi gert þetta sjálf. Annars hefði þetta verið hrein pynting. Hvort útlitsbreytingin hafi skilað blessaðri konunni aukinni hamingju eða lífsfyllingu veit enginn en ljóst er að hún markaði tímamót í sögu íslenskra tannviðgerða. Svend segir að ekki sé vitað um tilvik sem þetta fyrr. Þetta sé væntanlega fyrsta útlitsbætandi aðgerð á Íslandi og kannski fyrsta tannviðgerðin. Svend segir að ástand tanna forfeðra okkar hafi verið nokkuð gott. Aðalvandamálið var slit vegna fæðunnar, þurrkaðs kjöts og fisks sem í voru rykagnir og jafnvel gosaska sem vann vel á tönnunum. Þá var skyrbjúgur landlægur og honum fylgdi blæðandi tannhold. Og svo má ímynda sér útlitið. Svend segir að tennurnar hafi nánast verið á kafi í tannsteini. Svo má minna á, ekki síst þar sem von er á miklu súkkulaðiáti næstu daga, að mikilvægt er að bursta tennur tvisvar á dag með flúortannkremi og að góð tannburstun tekur að minnsta kosti tvær mínútur. Þannig má einnig koma í veg fyrir tannsteinsmyndun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×