Sport

Hættir við að kæra Guðjón

Stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur mun ekki kæra Guðjón Þórðarson fyrir samningsrof eins og talað var um að gera þegar Guðjón sagði starfi sínu lausu þrem dögum fyrir fyrsta leik í Landsbankadeildinni. "Það er ekki búið að taka formlega ákvörðun en ég á ekki von á því að við kærum," sagði Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, við Fréttablaðið í gær. "Lögfræðingar okkar telja að við séum með unnið mál í höndunum en það er ekkert að sækja á kallinn." Með því á Rúnar við að ekki sé hægt að lögsækja einstaklinginn Guðjón Þórðarson heldur verða þeir að kæra eignarhaldsfélagið G.Þ. ráðgjöf, þar sem Guðjón er stjórnarformaður, en þeir sömdu við það "fyrirtæki" til þess að stýra liði sínu. Rúnar varð ævareiður þegar Guðjón sagði upp enda taldi Rúnar að ástæða uppsagnarinnar væri sú að Guðjón væri búinn að semja við enskt félag. Guðjón sagði aftur á móti að Keflavík hefði ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar samningsins og því hefði hann ákveðið að segja honum upp. "Guðjón lýgur algjörlega. Þetta er lygi og óþverraskapur. Maðurinn fer bara með tóma steypu og þetta eru allt rakalaus ósannindi hjá honum. Þetta er bara skrípaleikur," sagði Rúnar meðal annars eftir að Guðjón hafði sagt upp og hann er enn sár í dag. "Ég hefði viljað hjóla í kallinn en félagið gengur fyrir og við getum ekki farið út í dýr málaferli sem síðan skila okkur engu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×