Innlent

Tugmilljónir í laxarannsóknir

Starfsmenn Veiðimálastofnunar hafa að undanförnu komið fyrir síritandi mælimerkjum í laxaseiðum sem mæla hita og dýpi í allt að tvö ár. Verkefnið er stærsta einstaka verkefnið sem Veiðimálastofnun hefur ráðist í og er áætlað að um 70 til 80 milljónir króna þurfi til að fjármagna það.  Ráðgert er að árlega verði sleppt 300 merktum seiðum næstu þrjú árin en verkefninu lýkur eftir fimm ár þegar seiðin hafa skilað sér úr hafi. Þeim verður sleppt í Kiðafellsá við sunnanverðan Hvalfjörð, en Veiðimálastofnun hefur tekið ána á leigu meðan á verkefninu stendur.  Sigurður Már Einarsson , fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun á Hvanneyri, segir að verið sé að þróa aðferðir til að tryggja sem bestan árangur af verkefninu og hámarka endurheimt seiðanna. "Tilgangur rannsóknarinnar er að komast að því hvar laxinn heldur sig í úthafinu, en það hefur verið mönnum nokkur ráðgáta. Rannsóknir í laxveiðiám við Norður Atlantshaf leiða í ljós aukin afföll laxa á dvalartíma þeirra í sjónum, sérstaklega hjá stórlaxi sem er tvo ár í sjó áður en hann gengur upp í árnar. Við þurfum að afla þekkingar á farleiðum og búsvæðum þeirra í sjó, en slík vitneskja getur varpað ljósi á þessa hnignun. Þessi þróun hófst fyrir um 15 árum og enn sér ekki fyrir endann á þessari lægð", segir Sigurður Már. Með því að bera saman upplýsingar úr endurheimtum mælimerkjum og upplýsingar frá gervitunglum um yfirborðshita sjávar má kortleggja hvar laxinn heldur sig á mismunandi tímum í úthöfunum, en laxinn er uppsjávarfiskur líkt og síld. Mælimerkin eru þróuð og framleidd hjá hátæknifyrirtækinu Stjörnu Odda. Þetta er í fyrsta skipti sem svo smáum mælimerkjum er komið fyrir í laxagönguseiðum. NASCO, Alþjóða laxverndarsamtökin, hafa nú komið á fót laxverndarráði í samvinnu við þau lönd sem hagsmuna eiga að gæta við verndun og nýtingu Atlantshafslaxins. Ráðið hefur að markmiði að stuðla að samvinnu landanna um rannsóknir á ástæðum þessarar hnignunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×