Erlent

Grunsemdir um eldflaugarskot

Suður-kóresk stjórnvöld gruna Norður-Kóreumenn um að hafa skotið á loft skammdrægri eldflaug í gærmorgun, en suður-kóreska leyniþjónustan var síðla dags enn að vinna í því að afla staðfestingar á fréttinni. Fregnir hermdu að flaugin hefði lent í Japanshafi. Fjölmiðlar í Japan og Suður-Kóreu sögðu frá því að talsmenn Bandaríkjahers hefðu upplýst japönsk yfirvöld um hið meinta eldflaugarskot. Samkvæmt heimildum þessara miðla fór flaugin um 100 km leið út frá austurströnd N-Kóreu og stakkst síðan í sjóinn. Hvorki fulltrúar Japansstjórnar né bandarískir erindrekar voru reiðubúnir að tjá sig nokkuð um þessar fréttir. Að sögn AP-fréttastofunnar staðfesti hins vegar starfsmaður suður-kóresku leyniþjónustunnar, sem ekki vildi láta nafns síns getið, að vísbendingar væru um eldflaugarskot frá Norður-Kóreu. Unnið væri enn að því að afla staðfestingar á þeim grunsemdum. Norður-Kóreumenn hafa áður skotið í tilraunaskyni á loft eldflaugum sem þeir eru að prófa sig áfram með smíði á, í óþökk grannríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×