Erlent

Líkfundur á öskuhaugunum

Á annan tug líka fannst á ruslahaugum í útjaðri Bagdad í gær en auk þess týndu í það minnsta 26 lífi í hryðjuverkaárásum gærdagsins. Fjöldi þeirra sem hafa fallið síðan ríkisstjórn al-Jaafari tók við völdum nálgast nú þriðja hundraðið. Menn í leit að brotajárni og öðru nýtilegu fundu líkin á öskuhaugum á borgarmörkum Bagdad í gærmorgun. Þau eru sögð tólf talsins og var greinilegt að fólkið hafði verið tekið af lífi. Bundið hafði verið fyrir augu sumra fórnarlambanna og þau skotin í höfuðið. Líkin eru talin vera af bændum sem hurfu á dögunum er þeir voru á leið á markað með afurðir sínar. Í borginni Tikrit fórust átta lögreglumenn í bílsprengjuárás í gær en sjö særðust illa. Sunnar í landinu, í bænum Suwayrah, var enn einu sinni ráðist gegn umsækjendum um lögreglustörf en þá gekk sjálfsmorðssprengjumaður inn í mannþröng, drap fjórtán manns og særði tuttugu. Ríkisstjórn al-Jaafari fundaði í dag um versnandi öryggisástand í landinu en síðan hún tók við völdum hafa um 270 manns látið lífið í árásum. Talsmaður forsætisráðherrans sagði að búið yrði að skipa í öll ráðherraembættin á sunnudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×