Sport

Sex stoðsendingar í 2 leikjum

Guðmundur Benediktsson hefur þegar afrekað það tvisvar sinnum í fyrstu fimm leikjunum sem hann náði aldrei á glæstum níu ára ferli sínum í Vesturbænum. Guðmundur hefur náð tveimur stoðsendinga-þrennum í síðustu tveimur leikjum Valsliðsins, átti þrjár stoðsendingar í 3-0 sigri á Fram og svo aðrar þrjár í 5-1 sigri liðsins í Keflavík um helgina. Guðmundur hefur kannski bara skorað eitt mark í sumar, í 1. umferð gegn Grindavík, en hlutverk hans hjá Val snýst um allt annað en að skora mörkin, hann brýtur upp leik liðsins og er orðinn mjög hættulegur í öllum föstum leikatriðum sem hafa verið að skapa mikla hættu að undanförnu. Guðmundur lagði upp mark fyrir Garðar Gunnlaugsson í 2-0 sigri á Skagamönnum í annarri umferð, hann lagði upp öll þrjú mörkin í 3-0 sigri á Fram en þau skoruðu Matthías Guðmundsson, Sigþór Júlíusson og Baldur Aðalsteinsson og í Keflavík lagði hann upp skallamörk fyrir Atla Svein Þórarinsson og Baldur Aðalsteinsson úr hornspyrnum og loks mark fyrir Garðar Gunnlaugsson á lokamínútum leiksins en Garðar hafði komið inn á sem varamaður. Guðmundur hefur alls komið að undirbúningi átta marka Valsliðsins í sumar og þrátt fyrir að það séu aðeins fimm umferðir búnar af mótinu hefur hann ekki átt þátt í uppbyggingu fleiri marka allar götur síðan 1999 þegar hann lagði upp 15 mörk KR-liðsins og var um haustið kosinn leikmaður ársins. Eintakt afrek hjá Guðmundi Stoðsendingar hafa verið skráðar í efstu deild síðan 1992 og er þetta í fyrsta sinn sem leikmaður nær að gefa þrjár stoðsendingar í tveimur leikjum á sama tímabilinu og hvað þá í tveimur leikjum í röð. Guðmundur gaf 37 stoðsendingar með KR á árunum 1995 til 2004 en náði aldrei að leggja upp fleiri en tvö mörk í einum og sama leiknum. Guðmundur er í raun aðeins 16. leikmaðurinn frá 1992 sem nær umræddri stoðsendingaþrennu og aðeins þrír aðrir hafa náð því tvisvar sinnum á ferlinum. Haraldur Ingólfsson gaf fjórar stoðsendingar með ÍA gegn ÍBV 1992 og 3 stoðsendingar með ÍA gegn Breiðabliki 1994, Bjarki Gunnlaugsson gaf þrjár stoðsendingar fyrir ÍA gegn ÍBV 1992 og KR gegn Víkingi 1999 og Veigar Páll Gunnarsson gaf þrjár stoðsendingar með Stjörnunni gegn Leiftri 2000 og endurtók síðan leikinn með KR gegn ÍA þremur árum seinna. Guðmundur hefur nú gefið 49 stoðsendingar í 152 leikjum í efstu deild, fimm fyrir Þór Akureyri, 37 fyrir KR og sjö fyrir Val. Haraldur Ingólfsson hefur gefið flestar stoðsendingar frá því að skráningar þeirra hófst fyrir 13 árum en hann gaf 59 stoðsendingar á félaga sína í Skagaliðinu. Guðmundur er sem stendur í 3. sætinu, þremur stoðsendingum á eftir Inga Sigurðssyni og verður þriðji leikmaðurinn til að leggja upp 50 mörk þegar hann gefur næstu stoðsendingu. Næsti leikur Valsmanna er gegn Íslandsmeisturum FH á Hlíðarenda á morgun og nú er að sjá hvað Guðmundur gerir gegn hinni sterku vörn FH sem hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í fyrstu fimm umferðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×