Erlent

Saklaus eftir 26 ára fangelsisvist

Luiz Diaz, Bandaríkjamanni af kúbönskum uppruna, var í gær sleppt úr fangelsi eftir 26 ára dvöl þar. Diaz hafði verið dæmdur fyrir fjölda nauðgana en nýjar DNA-rannsóknir sýndu að hann var saklaus. Þrjátíu vinir og ættingjar stóðu upp og klöppuðu eftir að dómarinn lýsti Diaz frjálsan mann. Diaz er giftur og á þrjú börn. Hann var sakfelldur árið 1980 og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann hafði verið sakaður um 25 nauðganir sem áttu að hafa átt sér stað á þriggja ára tímabili. Dómurinn var á sínum tíma byggður á því að átta fórnarlambanna töldu sig bera kennsl á Diaz, en tvö þeirra breyttu framburði sínum þrettán árum síðar. Samtök lögfræðinga í Bandaríkjunum sem sérhæfa sig í því að fá saklausa fanga lausa með DNA-rannsóknum höfðu unnið í máli hans. Fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Janet Reno, var saksóknari þegar Diaz var dæmdur á sínum tíma. Hún hefur ekki svarað símtölum blaðamanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×