Erlent

Prófsteinn á lýðræði og frið

Á laugardaginn ganga Írakar í annað sinn að kjörborðinu á innan við ári. Í janúar kusu þeir löggjafarþing sem ritaði stjórnarskrá, nú er komið að því að þjóðin segi sína skoðun á plagginu. Fari svo að tilskilinn meirihluti - annað hvort hreinn meirihluti þeirra sem greiða atkvæði eða 2/3 hlutar kjósenda í þremur af átján héruðum landsins - felli stjórnarskránna eru Írakar aftur komnir á byrjunarreit því þá þarf að endurtaka allt ferlið. Samþykki þeir hins vegar plaggið kjósa þeir nýtt löggjafarþing um miðjan desember. Blóðugur aðdragandi Ekki þarf að fara mörgum orðum um vargöldina sem ríkt hefur í Írak síðastliðin misseri en uppreisnarmenn hafa lofað að valda eins miklu usla og þeir geta. Síðast í fyrradag var gerð bílsprengjuárás í borginni Tal Afar í norðvesturhluta landsins þar sem 27 manns fórust og í gær biðu 30 verðandi hermenn bana í árás í sömu borg. Sú staðreynd að öryggisástandið er eins slæmt og raun ber vitni er mjög alvarleg því ótti fólks við árásir kemur í veg fyrir kosningaþátttöku þess. Góðu fréttirnar eru þær að skráðir kjósendur eru mun fleiri í þjóðaratkvæðagreiðslunni nú heldur en í kosningunum í janúar. Mestu munar þar um súnnía sem þá voru hvattir til að sniðganga kjörfundinn, nú eru hundruð þúsunda þeirra komin kjörskrá enda eru hafa þeir verið staðráðnir í að fella stjórnarskránna í atkvæðagreiðslunni. Þótt á það hafi verið bent að í fjórtán héruðum af átján gangi lífið nokkurn veginn sinn vanagang þá eru hins vegar rósturnar mestar í þeim héruðum þar sem súnníar búa, til dæmis Anbar-héraði. Því er ekki sjálfgefið að skráðir kjósendur muni mæta á kjörstað þegar ástandið er með þeim hætti sem það er í dag. Þau öfl sem vilja eyðileggja kjörfundinn á laugardaginn beina með öðrum orðum spjótum sínum að súnníum því þannig helst pólitísk einangrun þeirra og óánægja og af henni leiðir meiri ólgu í landinu. Spurningin um súnníana Þar sem súnníar sniðgengu kosningarnar í janúar hafa sjíar og Kúrdar töglin og hagldirnar á íraska þinginu og er stjórnarskráin nær eingöngu þeirra verk. Súnníar eru hins vegar æfir yfir ýmsum ákvæðum stjórnlagafrumvarpsins. Þeir óttast sérstaklega hugmyndir um að héruð geti sameinast í hálfsjálfstæðar einingar, að Írak verði að nokkurs konar sambandsríki. Í slíku ríki búast þeir við að verða settir til hliðar á „söndunum í Anbar“ á meðan Kúrdar og sjíar njóta góðs af olíugróðanum - stjórnarskráin kveður á um að í „tiltekinn tíma“ muni þau héruð sem búa yfir olíu og sættu ofsóknum á Baath-tímabilinu fá stærri hlut en önnur af tekjum af olíusölu. Kúrdar og sjíar munu halda sínum vopnuðu sérsveitum í slíkum ríkjum enda viðurkenna bandarískir embættismenn að ólíklegt sé að afvopnun slíkra sveita verði að veruleika í bráð, meðal annars vegna þeirrar gagnkvæmu tortryggni sem ríkir á milli þjóðfélagshópanna. Vegna þessara og ýmissa annarra atriða er vandséð að þessi stjórnarskrá sé gott framlag til að tryggja frið í landinu, frekar virðist farsælla að drögin verði felld og nýtt þing þar sem súnníar hafa meiri völd skrifi ný drög. Háttsettur embættismaður í bandaríska utanríkisráðuneytinu sem Fréttablaðið ræddi við sagði slíkar vangaveltur eðlilegar. „Ég vil hins vegar ekki ganga svo langt að segja að texti stjórnarskrárinnar skipti ekki máli. Aftur á móti skiptir mestu máli hvernig ákvæðum hennar er hrint í framkvæmd. Þannig á eftir að semja lög sem kveða nánar um útfærslu á um áttatíu ákvæðum plaggsins svo að súnníar hafa svo sannarlega ennþá tækifæri til að hafa áhrif á hvernig stjórnskipun landsins verður háttað.“ Vindáttin að snúast? Með þetta í huga er ekki skrítið að margir fagni tíðindum þriðjudagsins um að einn stærsti stjórnmálaflokkur súnnía hafi ákveðið að láta af andstöðu sinni við stjórnarskrárdrögin gegn því að sjíar og Kúrdar beiti sér fyrir því að komið verði á sérstakri stjórnlaganefnd sem taki plaggið til endurskoðunar strax að loknum kosningum. Þótt enn sé of snemmt að segja hvaða áhrif samkomulagið hefur á almenning verður að teljast líklegt að þessi sinnaskipti stjórnmálaleiðtoga súnnía muni skila sé í fleiri já-atkvæðum umbjóðenda þeirra. Ástæðan er einfaldlega sú að samkomulagið gefur súnníum ríka ástæðu til að halda áfram að starfa innan stjórnmálastofnanna ríkisins. Á hinn bóginn hlýtur þessi staða að teljast nokkuð einkennileg því á laugardaginn eru Írakar að greiða atkvæði um plagg sem allt eins líklegt er að muni gjörbreytast nánast um leið og atkvæðin hafa verið talin upp úr kössunum, verði það á annað borð að lögum. Því má spyrja hvort ekki hefði hreinlega verið farsælla að gefa þinginu lengri frest til að semja stjórnarskrárdrögin og kjósa um þau svo. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×