Innlent

Var bjargað kátum en köldum

Björgunarbáturinn Gunnar Friðriksson kom tveimur mönnum til bjargar klukkan sex í gærmorgun eftir að smábáturinn Eyjólfur Ólafsson hafði strandað við vitann á Straumnesi norðan Aðalvíkur við Ísafjarðardjúp. Smábáturinn var farinn að leka mikið og afréðu mennirnir að senda út neyðarkall um klukkan hálf fjögur og enn fremur ákváðu þeir að sigla bátnum í strand svo hann sykki ekki eða yrði fyrir frekari skemmdum. Afar stórgrýtt er á þessum slóðum og því erfitt að koma báti að landi. Björgunarbáturinn togaði svo smábátinn á flot um klukkan níu í gærmorgun og kom honum ásamt áhöfn til hafnar í Bolungarvík um hádegisbilið. Að því loknu var báturinn hífður í land og er hann nú í viðgerð í Vélsmiðjunni Mjölni þar í bæ. Pálmi Stefánsson, skipstjóri á Gunnari Friðrikssyni, segir það mikla mildi að logn hafi verið því örugglega hefði verið tvísýnt um líf og limi manna hefði verið brim. "Þeir voru kaldir en kátir þegar við komum þeim til hjálpar," segir Pálmi en bætir við að vissulega hafi tvímenningarnir verið skelkaðir því lúkarinn var orðinn fullur af sjó þegar þeim var komið til bjargar. Að sögn Jóns Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Landsbjargar, var fiskibátur staddur skammt frá Eyjólfi Ólafssyni þegar hann strandaði. Ætlaði skipstjóri bátsins að freista þess að koma skipbrotsmönnum til hjálpar en horfið var frá því þar sem hætta væri á að fiskibáturinn strandaði sjálfur eða laskaðist. Í Aðalvík, rétt við slysstað, fæddist og ólst upp Gunnar Friðriksson en hann var forseti Slysavarnarfélags Íslands í 22 ár og er björgunarbáturinn skírður eftir honum. Gunnar lést í byrjun þessa árs. Friðrik, sonur Gunnars, segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem björgunarbáturinn leiti á bernskuslóðir nafna síns til björgunarstarfa. "Þegar báturinn var skírður árið 2000 kom fljótlega útkall frá Látrum í Aðalvík, það eina sem borist hefur þaðan fyrr og síðar. Gamlir menn á Ísafirði höfðu þá orð á því við föður minn að einhverjir í Aðalvíkinni vildu kíkja á gripinn," segir Friðrik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×