Erlent

Gambíturinn gæti borgað sig

Brotthvarf Ariel Sharon úr Likud-bandalaginu markar upphaf nýs kafla í stjórnmálasögu í Ísrael. Ljóst er að þessi aldni haukur tekur umtalsverða áhættu með þessu bragði sínu en skoðanakannanir benda þó til að flétta forsætisráðherrans geti vel gengið upp.

Síðastliðið sumar var bent á kaldhæðni þess að Ariel Sharon skyldi verða sá forsætisráðherra Ísraelsríkis sem léti leggja niður landnemabyggðir á Gaza-ströndinni þar sem fáir hafa barist jafn ötullega fyrir landnámi gyðinga á herteknu svæðunum og hann. Á sama hátt urðu í fyrradag margir til að benda á að nú hefði maðurinn sem tók þátt í að stofna Likud-bandalaginu farið langt með að reka því náðarhöggið.

Hröð atburðarás

Enda þótt brotthvarf Sharon úr Likud-bandalaginu eigi sér nokkurn aðdraganda má segja að Amir Peretz, hinn nýkjörni leiðtogi Verkamannaflokksins, hafi hrundið atburðarásinni af stað á sunnudaginn með því að slíta stjórnarsamstarfinu við Likud-bandalagið. Sharon, sem í sívaxandi mæli hafði lent í útistöðum við sína fyrrum félaga vegna ýmissa mála, sá sér leik á borði, yfirgaf flokkinn og fór fram á við Moshe Katsav forseta að þing yrði rofið og boðað yrði til kosninga. Lunganum úr mánudeginum eyddi Sharon svo í að sannfæra bandamenn sína um að fylgja sér yfir í hinn nýstofnaða Þjóðarábyrgðarflokk. Þegar hafa fjórtán þingmenn Likud tekið áskoruninni en auk þess vonast Sharon til að einhverjir liðsmenn Verkamannaflokksins, jafnvel Shimon Peres, gangi til liðs við sig þótt það sé reyndar talið ólíklegt.

Útlitið nokkuð bjart

Þrjár skoðanakannanir sem gerðar voru í gær sýna að Þjóðarábyrgðarflokkurinn nýtur umtalsverðs fylgis á meðal Ísraela. Tíðindi mánudagsins virðast ekki hafa gert Verkamannaflokknum skráveifu en Likud-bandalagið biði afhroð ef kosið yrði nú. Í könnun dagblaðsins Haaretz um fylgi við einstaka stjórnmálamenn - en Ísraelar kjósa forsætisráðherra beinni kosningu - kemur í ljós að 37 prósent aðspurðra telja Sharon heppilegastan til starfans, 22 prósent Peretz og fimmtán prósent vilja hvern þann sem verður leiðtogi Likud-bandalagsins.

Kannanir frá því fyrir helgi sýndu raunar þá þegar að Sharon myndi vegna vel ef hann stofnaði eigin flokk. Reuven Adler, einn nánasti ráðgjafi Sharon, viðurkenndi í samtali við tímaritið Time í gær að kannanirnar hefðu einmitt ráðið úrslitum um að hann kaus að bjóða sig fram.

Þótt Sharon sé langvinsælasti stjórnmálamaður landsins er samt ólíklegt að meðbyrinn muni haldast. Reynslan sýnir frekar að fljótlega fjarar undan klofningsflokkum, eins og til dæmis Rafi-flokki David Ben Gurion forsætisráðherra, sem Ísraelar halda nánast í dýrlingatölu, í kosningunum 1965. Því ríður á fyrir Sharon að kosningar verði haldnar sem allra fyrst.

Vill deila og drottna

Auðvelt er að skilja hvað vakir fyrir Sharon. Hann var farinn óttast að flokkurinn sem hann átti orðið í stöðugt harðvítugri deilum við ætlaði sér að losa sig hann að loknum næstu kosningum. Afar ólíklegt er að Verkamannaflokkurinn eða Likud-bandalagið fái hreinan meirihluta í þeim kosningum og við formannsskiptin í Verkamannaflokknum varð nánast jafn ólíklegt að þessar hreyfingar mynduðu samsteypustjórn. Því ákvað Sharon einfaldlega að taka slaginn og stofna öflugan flokk á miðjunni sem er opinn í báða enda, ekki ósvipað og Framsóknarflokkurinn hérlendis.

Á þessari stundu er líklegra að Sharon myndi ríkisstjórn með Peretz að loknum kosningum. Yaron Metrazi, stjórnmálaprófessor í Jerúsalem sagði í viðtali við breska blaðið Guardian í gær að án Sharon virðist Likud-bandalagið í augum kjósenda vera orðinn of hægrisinnað til að líkur séu á að því takist að ná friði við Palestínumenn. Þrátt fyrir áherslumun í efnahagsmálum tala þeir Sharon og Peretz hins vegar á svipuðum nótum um hvernig friði skuli náð, þ.e.a.s. með því að fylgja friðarvegvísinum svonefnda sem gerir ráð fyrir sjálfstæðu ríki Palestínumanna, auk þess að taka á hryðjuverkamönnum af hörku.

Framganga Sharon hingað til hvað fyrrnefnda liðinn varðar gefur raunar ekki tilefni til mikillar bjartsýni en eins og Ben Casbit, dálkahöfundur ísraelska dagblaðsins Maariv, bendir á þá eru síðustu forvöð fyrir hinn 77 ára gamla klækjaref til að reisa sér pólitískan minnisvarða. Ef honum tekst ætlunarverk sitt þá gæti hann skyggt á sjálfan Ben Gurion. Ef honum misheppnast verða örlög hans þau svipuð Shimonar Peres, nema talsvert hraksmánarlegri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×