Sport

Engu að tapa í síðari leiknum

FH var í eldlínunni í Meistaradeild Evrópu í gær en mátti þola vont tap gegn Neftchi Baku í fyrri leiknum , 0-2. FH-liðið þarf því að vinna heimaleikinn eftir viku með þriggja marka mun en leikurinn í dag var sá fyrsti sem liðið tapar í sumar. FH-ingar eru í nokkuð erfiðri stöðu í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir 2-0 tap gegn Neftchi Baku frá Aserbaídsjan í gær. Heimamenn skoruðu annað markið á síðustu mínútu leiksins og gæti það reynst afar dýrmætt þegar einvígi liðanna lýkur, en síðari leikurinn fer fram í Kaplakrika að viku liðinni. „Seinna markið hjá þeim var algjör heppni og klaufaskapur hjá okkur. Það kom fyrirgjöf og skalli og mark. Algjör óþarfi," sagði óánægður Pétur Stephensen, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar FH, þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær, en hann fylgdist með sínum mönnum ytra í gær. Leikstíll FH í Aserbaídsjan í gær var töluvert frábrugðin þeim sem liðið hefur verið að notast við í sumar og kaus Ólafur Jóhannsson, þjálfari liðsins, að hefja leikinn með fimma manna varnarlínu þar sem Freyr Bjarnason fór í miðja vörnina en Davíð Þór Viðarsson lék í stöðu vinstri bakvarðar. „Það var lagt upp með að fá ekki á sig mark en því miður gekk það ekki upp," segir Pétur, en heimamenn náðu forystunni strax á 20. mínútu. Segja má að leikmenn Neftchi hafi verið með leikinn í höndunum allan tímann og spiluðu mjög ákveðið gegn FH-ingum sem voru, að sögn Péturs, ekki samkvæmir sjálfum sér. Það sést kannski best á því að Íslandsmeistarar FH náðu varla að skapa sér opið marktækifæri í öllum leiknum. „Við létum bara ekki finna nægilega mikið fyrir okkur í fyrri hálfleik, en í seinni hálfleik áttum við í fullu tré við þá. Og nú verðum við bara að vinna þá heima, ekkert öðruvísi. Þá spilum við meiri sóknarleik enda höfum við engu að tapa," segir Pétur. fréttablaðið/Stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×