Sport

Getum orðið Íslandsmeistarar

Frammistaða karlaliðs Vals í vetur hefur vakið verðskuldaða athygli enda hefur liðið unnið öll þau þrjú mót sem það hefur tekið þátt í. Valur hefur ekki unnið marga titla í karlaboltanum síðustu ár og því vekur árangur liðsins mikla athygli og menn eru þegar farnir að spá því góðu gengi í Landsbankadeildinni í sumar. Það eru kannski ekki óraunhæfar spár því félagið hefur sankað að sér sterkum leikmönnum í vetur og við stjórnvölinn er nú einhver sigursælasti þjálfari landsins, Willum Þór Þórsson, sem vann tvo Íslandsmeistaratitla með KR. Hann fékk ekki að halda starfi sínu áfram í Vesturbænum og erkifjendurnir hinum megin við lækinn voru fljótir til og tryggðu sér þjónustu þessa kraftmikla þjálfara sem iðulega lætur mikið til sín taka á hliðarlínunni. "Við erum ekki búnir að setja okkur markmið fyrir sumarið en það er mikill hugur í Valsmönnum og leikmenn eru mjög hungraðir í að standa sig í deild þeirra bestu," sagði Willum Þór en stjórn Vals gaf það út fljótlega eftir að úrvalsdeildarsætið var tryggt að félagið ætlaði sér ekki að vera í botnbaráttu næsta sumar. Stefnan væri að koma Val aftur í hóp þeirra bestu og það strax. Sá metnaður hefur endurspeglast í kaupum á sterkum leikmönnum og síðan í þjálfaranum sigursæla. "Það er eðlilegt markmið að vilja ná árangri. Svo er spurning hvernig gengur að ná þeim árangri," sagði Willum en er hann búinn að spá í það hvað sé eðlilegt að fara fram á mikið af þessu liði næsta sumar? "Ég hef eitthvað leitt hugann að því en við höldum okkur við tímatengd markmið og erum ekkert að fara fram úr sjálfum okkur í því," sagði Willum eins og góður pólitíkus. Willum hefur ekki farið leynt með það í gegnum tíðina að hann er ákaflega metnaðarfullur þjálfari og í ljósi þess hlýtur hann að setja stefnuna hátt á sínum nýja vinnustað. "Ég get fullyrt að við erum ekki að fara í næsta leik til að tapa honum," sagði Willum en hefur hann trú á því að þetta Valslið geti farið alla leið í sumar? "Já, við trúum því. Það eru líka 10% líkur á því þegar mótið er flautað á. Metnaðurinn er til staðar. Ég ætla samt ekki að lýsa því yfir að við verðum Íslandsmeistarar. Það hef ég aldrei gert og slíkar yfirlýsingar skila engu." Þrátt fyrir gott gengi í vetur segist Willum ekki hafa fundið fyrir því að menn á Hlíðarenda séu farnir að byggja skýjaborgir. Þótt mikið sé af nýjum mönnum í hópnum hefur Willum gengið vel að púsla liðinu saman. "Þetta hefur allt gengið mjög vel og þessi hópur er alltaf að hristast betur og betur saman. Það er sérstaklega góður andi í þessum hópi. Það var fyrir í liðinu ákveðinn kjarni og svo er búið að blanda við þann kjarna reynslumiklum og félagslega sterkum einstaklingum. Þetta eru metnaðarfullir einstaklingar sem hafa sett sér háleit markmið og við erum að hrista saman mjög þéttan hóp," sagði Willum. Það vekur alltaf athygli þegar leikmenn og þjálfarar fara á milli Vals og KR. Þegar tilkynnt var um ráðningu Willums hjá Val skiptust stuðningsmenn félagsins í tvennt - þeir sem fögnuðu komu hans til félagsins og þeir sem vildu ekki sjá "einhvern KR-ing" stýra liðinu. Það liggur því beinast við að spyrja hver sé helsti munurinn á að starfa fyrir þessi tvö félög. "Það er ekkert svo ólíkt enda eru bæði félög með mjög sterka og ríka hefð. Þau eru einnig bæði byggð upp af fólki sem hefur mikinn metnað," sagði Willum en hvernig var það fyrir harðan uppalinn KR-ing að ganga til liðs við Val? "Það var ekki erfitt. Mér fannst þetta vera spennandi tækifæri og þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um þegar kallið kom. Ég er Valsari í dag en ég er líka KR-ingur. Maður afneitar ekki upprunanum og það mun ég aldrei gera," sagði Willum, sem bíður spenntur eftir því að leiða sína menn til leiks gegn KR í Frostaskjólinu í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×