Sport

Auðunn Jónsson Íslandsmeistari

Kópavogströllið Auðunn Jónsson náði sögulegum árangri á mótinu í gær, þegar hann varð fyrsti Íslendingurinn til að lyfta yfir 1100 kílóum í samanlögðu og sigraði með glæsibrag, eftir sögulegt einvígi við hinn kornunga Benedikt Magnússon. Benedikt sagði fyrir mótið að Auðunn myndi þurfa á öllu sínu besta til að sigra og það kom á daginn, því Auðunn náði hámarksárangri í öllum greinum og setti glæsilegt Íslandsmet. Auðunn setti tóninn á mótinu með því að slá eigið Íslandsmet í hnébeygju í fyrstu tilraun og með því var ljóst hvert stefndi. Hann hætti ekki fyrr en hann hafði bætt Norðurlandametið í greininni og lyfti best 432,5 kílógrömmum. Í bekkpressunni heppnaðist fyrsta lyftan hans ekki sem skyldi, en hann hristi af sér slenið og snaraði upp 300 kílóum, fyrstur Íslendinga. Benedikt var ekki langt undan í fyrstu greinunum og var að bæta sig vel. Þá var aðeins réttstöðulyftan eftir og þar vippaði Benedikt upp 410 kílóum í fyrstu lyftu sinni og bætti með því eigið Íslandsmet um 10 kíló. Þá voru næst á stöngina 425 kíló, sem hefðu tryggt honum heimsmetið í greininni, en upp vildi stöngin ekki að þessu sinni. Það var því Auðunn Jónsson sem hafði sigur í þungavigtinni með því að lyfta 1.117,5 kílóum í samanlögðu. Benedikt hafnaði í öðru sæti og tók 1.090 kíló, sem er mikil bæting hjá honum, og þriðji varð Kristinn Óskar Haraldsson með 960 kíló í samanlögðu. Þetta er besti árangur sem náðst hefur á Íslandsmóti frá upphafi og var það vel við hæfi á 20 ára afmæli Kraftlyftingasambandsins. Auðunn Jónsson var himinlifandi með árangurinn á mótinu. "Það var allt að ganga upp hjá mér og ég kom sjálfum mér á óvart í hnébeygjunni. Það var líka gott að ná loksins í 300 kílóin í bekknum og þetta mót var bara frábært í alla staði. Það er gaman að hafa þessa góðu samkeppni, troðfullt hús af fólki og frábæra stemmningu," sagði Auðunn, sem náði öðrum besta árangri allra tíma í samanlögðu á mótinu í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×