Erlent

Segir afstöðu ráðast af fordómum

Írak og Íran eru þau ríki sem eru efst á verkefnalista George Bush í utanríkismálum. Víða á Vesturlöndum eru þessi lönd álitin vandamál. Magnús Þorkell Bernharðsson, sérfræðingur í málefnum Miðausturlanda, hefur ritað nýja bók þar sem hann fjallar um sögu þessara ríkja, menningu þeirra og trúarbrögð. Hann segir afstöðu Vesturlanda ráðast meira af innanríkispólitík og fordómum en nokkru öðru. Óhætt er að segja að þungamiðja utanríkisstefnu Bandaríkjanna undanfarin ár hafi verið Íraksstríðið. Deilt er um réttmæti þess og tilgang og hvernig hægt sé að binda enda á óöldina þar. Á sama tíma berast fregnir af áhuga Bandaríkjastjórnar á Íran og að jafnvel sé lagt á ráðin um að ráðast þar inn. Íran er efst á lista bandarískra stjórnvalda yfir vandræðasvæði víðs vegar um heiminn, að sögn Dicks Cheneys, varaforseta Bandaríkjanna, sem segist hafa að því áhyggjur að Ísraelsmenn láti til skarar skríða gegn Írönum. Ljóst er að athygli heimsbyggðarinnar mun áfram beinast að þessum heimshluta. Magnús Þorkell Bernharðsson er sérfræðingur í málefnum Miðausturlanda og hann telur líkurnar á innrás minni en fyrir nokkrum misserum, einkum þar sem herinn situr fastur í Írak. Og hann telur vænlegt að minnka jafnvel afskiptin af málefnum þessara þjóða. Mikilvægast sé að þjóðir Afríku og Miðausturlanda, þá sérstaklega Írak og Íran, upplifi að þær séu sjálfstæðar og þær fái að lifa í friði án þess að eiga von á erlendri íhlutun hvenær sem er. Þessar þjóðir séu sjálfstæðar hvort sem okkur líki það betur eða verr og hafi fullan rétt á því að taka ákvarðanir um eigin framtíð. Magnús telur vanþekkingu á málum Íraks og Írans vera áberandi á Vesturlöndum. Á hverju byggja þá stjórnmálamenn afstöðu sína? Magnús segir að þeir byggi hana á forsendum innríkisstjórnmála og fordómum. Fordómar verði til vegna vankunnáttu. Mörgum finnist lítil rökhugsun í gerðum fólks í Miðausturlöndum en almennt hafi fólk rökhugsun og telji sig taka rétta ákvörðun út frá eigin veruleika. Spurningin sé því hvernig við getum kynnt okkur best þann veruleika og hvaða forsendur íbúar hafa þar þegar þeir taki sínar ákvarðanir. Það sé miklu mikilvægara en að miða allt út frá gildum eða forsendum Vesturlanda. Þær skipti engu máli fyrir Íraka og Írana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×