Innlent

Teknar verði upp beinar viðræður

Impregilo hefur fallist á að taka upp beinar viðræður við verkalýðshreyfinguna, til þess að reyna að leysa ágreiningsmálin. Starfsmannastjóri Impregilo segir eðlilegt að verkalýðshreyfingin berjist fyrir sitt fólk. Impregilo tilkynnti um þessa stefnubreytingu á fundi með fréttamönnum í dag. Á þeim fundi voru nokkrir æðstu yfirmenn fyrirtækisins, meðal annars starfsmannastjóri þess í Mílanó. Á fundinum voru einnig fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samiðn, Vinnumálastofnun, Landsvirkjun og Starfsgreinasambandinu. Þessir aðilar sátu á fundi í morgun. Finnbjörn Hermannsson, formaður Samiðnar, sagði að engin ágreiningsmál hefðu verið til lykta leidd á þessum fundi enda hefði það ekki verið ætlunin. Hins vegar hefðu forsvarsmenn Impregilo fallist á að funda með verkalýðshreyfingunni en eftir því hefðu hinir síðarnefnu sóst frá því í um miðjan nóvember. Samþykkt hefði verið fundaáætlun þar sem vandamálin yrðu rædd. Franco Ghiringhelli, starfsmannastjóri Impregilo, kom frá Mílanó til að taka þátt í þessum viðræðum. Hann hefur eðli málsins samkvæmt fylgst vel með deilum sem upp hafa komið hér á landi. Aðspurður hvort erfiðara væri að fást við Íslendinga en aðrar þjóðir sagði Ghiringelli að það væri ekki erfiðara en að eiga við Ítali. Íslendingar ættu sína sérstöku menningu en Impregilo virti hana sem og siðvenjur þjóðarinnar. Margt væri ólíkt hjá þjóðunum tveimur en það kæmi ekki í veg fyrir að framkvæmdinni yrði lokið. Á fundinum voru einnig fulltrúar ítalskra verkalýðsfélaga og Alþjóðasambands byggingarverkamanna sem hafa kynnt sér aðbúnað verkamanna við Kárahnjúka. Þeir sögðust hafa gert athugasemdir við nokkur öryggisatriði sem og aðstöðu í mötuneyti og hefði Impregilo lofað að kippa því í liðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×