Erlent

Vill útrýma harðstjórn í heiminum

George Bush Bandaríkjaforseti hét því að brúa gjána á milli andstæðra hreyfinga í Bandaríkjunum og að útrýma harðstjórn um allan heim í setningarræðu sinni í gær. Ríflega helmingur Bandaríkjamanna efast um fyrirætlanir forsetans. Enginn forseti frá því að Richard Nixon var svarinn í embætti í annað sinn hefur notið jafn lítils trausts og George Bush. Hann fær 52 prósent úr út könnunum um ánægju með störf hans. Hann virtist þó ekki láta þetta á sig fá og hélt setningarræðu sína fyrir aftan þykka, skothelda glerplötu, en segja má að gríðarleg öryggisgæsla hafi nánast skyggt á hátíðarhöldin í Washington í gær. Skilja mátti orð Bush á köflum sem nokkuð eindregna viðvörun til harðstjórna um allan heim. „Við stöndum með þeim sem standa fyrir lýðræði og umbótasinnar, hvar sem þeir eru, í fangelsum eða útlegð, hafi þetta hugfast: Bandaríkin vita hverjir þið eruð og líta svo á að þið séuð framtíðarleiðtogar þjóða ykkar,“ sagði Bush. Hann sagði jafnframt að það væri hagur Bandaríkjanna og mikilvægt fyrir öryggishagsmuni landsins að vinna að framgangi lýðræðis um víða veröld. Þrír fjórðu hlutar aðspurðra í könnun Gallups fyrir CNN sögðust hafa fylgst með vígslunni í gær og almennt ríkti ánægja með frammistöðu forsetans. Sextíu prósent aðspurðra töldu fyrirætlanir hans um að binda enda á harðstjórn óraunhæfar þó að meirihluti væri sammála markmiðinu. Bush stansaði stutt á setningardansleikjum sem haldnir voru honum til heiðurs í Washington í gær. Hann snaraði sér í gegnum heila níu dansleiki og var samt kominn heim rétt um klukkan tíu þar sem hann fór í bólið á sínum venjulega háttatíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×