Erlent

Ferðaþjónusta skilar fátækum litlu

Vestrænir aðilar, hótelkeðjur og afþreyingarfyrirtæki hvers konar, hirða megnið af því fé sem vestrænir ferðalangar skilja eftir í mörgum af þeim fátækari löndum heims sem eru vinsæl meðal erlendra ferðamanna og er því ferðaþjónusta víða ekki að skila þeim tekjum í ríkiskassann sem margir hafa reitt sig á. Meðan leiðtogar heimsins ræða vandamál fátækari ríkja reglulega á fundum sínum og taka jafnvel höndum saman um að minnka fátækt um helming í heiminum næsta áratuginn eða svo, eru vestræn fyrirtæki í óða önn að leggja undir sig flesta þá starfsemi sem ábatasöm getur talist í mörgum fátækum löndum og koma þannig í veg fyrir að efnahagur margra ríkja vænkist sem því nemur. Sérstaklega er þetta áberandi í Mið-Ameríku og í löndum í Karabíska hafinu enda er þangað stutt að fara fyrir velmegandi Bandaríkjamenn sem eru margir hverjir ekki feimnir við að opna buddu sína á ferðalögum. Nokk sama er hvar tekið er niður, sagan er víðast hvar eins. Meirihluti hótela á helstu ferðamannastöðum á Kúbu eru í eigu Spánverja eða annarra Evrópubúa. Bandarískir aðilar eiga flestöll hótelin á Jamaika og sömu sögu er að segja af vinsælustu ferðamannastöðum í Mexíkó, Panama og á Kosta Ríka. Ríkisstjórn Kosta Ríka á í megnustu erfiðleikum með að kosta og viðhalda þeim fjölmörgu þjóðgörðum sem þar eru þrátt fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna þar hafi þrefaldast síðustu tíu árin. Sömu sögu má segja af Jamaika þar sem ríkisstjórnin þurfti að leita á náðir bílaframleiðandans Toyota til að byggja og viðhalda þjóðvegum í landinu þrátt fyrir að eyjan hafi verið gríðarlega vinsæll dvalarstaður erlendra ferðamanna um langa hríð. Verra er hins vegar að ekki eingöngu skilar lítið fé sér í ríkiskassa viðkomandi þjóða heldur er það regla frekar en undantekning að umræddar vestrænar hótelkeðjur greiða mörg hver engin laun til starfsmanna sinna í þessum löndum heldur verða þeir að láta sér nægja þjórfé gesta sem laun. Víst er að stöku einstaklingur hefur eflaust af því bærilegar tekjur en mun fleiri bera skarðan hlut frá borði og verða auk þess að vinna langan vinnudag flestalla ef ekki alla daga vikunnar. Fæstir eru tryggðir og veikinda- eða dagpeningar þekkjast ekki. Fleiri og fleiri erlendir ferðamenn gera sér grein fyrir þessu og gera sér far um að kaupa gistingu og fæði aðeins á þeim stöðum sem innfæddir eiga og reka og tryggja með þeim hætti að allt fjármagnið verður eftir í landinu í stað þess að fara beint inn á bankareikninga stórfyrirtækja í Bandaríkjunum og í Evrópu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×