Erlent

Kvartettinn hittist í Lundúnum

Miðausturlandakvartettinn svokallaði mun hittast í Lundúnum fyrsta mars næstkomandi til að ræða friðarferlið í Miðausturlöndum og efnahagsaðstoð við Palestínumenn. Í Miðausturlandakvartettinum eru Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og Rússland. Allir þessir aðilar munu senda fulltrúa sína til fundarins í Lundúnum. Mönnum er mjög í mun að hamra járnið á meðan það er heitt og tryggja eins og hægt er vopnahléið sem leiðtogar Ísraels og Palestínu boðuðu á fundi sínum í Egyptalandi í gær. Ofarlega á dagskrá fundarins verður efnahagsaðstoð við sjálfstætt ríki Palestínumanna. Fjárhagur heimastjórnar þeirra er vægast sagt bágborinn eftir fjögurra ára stríð við Ísrael auk þess sem mikil spilling hefur þrifist í heimastjórninni. Bæði ísraelskur og palestínskur almenningur er löngu búinn að fá nóg af átökunum sem hafa kostað yfir 4000 þúsund manns lífið. Menn óttast hins vegar mjög að öfgaöfl í röðum Palestínumanna muni gera vopnahléið að engu með árásum eins og þau hafa gert svo oft áður. Þá hafa menn einnig áhyggjur af því að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, muni finna einhverja átyllu til þess að hleypa öllu í bál og brand.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×