Sport

Argentínumönnunum seinkar

Einhver bið verður á því að Fylkismenn fái til reynslu tvo Argentínumenn frá Indipendiente en von var á þeim í síðustu viku. Leikmennirnir sem um ræðir eru Hernan Gabriel Perez og Carlos Raúl Sciucatti. Báðir eru þeir ungir að árum en Perez er 20 ára og Sciucatti 19 ára. Ásgeir Ásgeirsson, formaður meistaraflokksráðs Fylkis, sagði ástæðu fyrir seinkun leikmannanna. "Þeir áttu að koma í síðustu viku en sökum þess að annar þeirra fékk ekki vegabréf þá hefur komu þeirra seinkað," sagði Ásgeir. Hann vonast til að málin skýrist fyrir helgi en sagði jafnframt að þeir hefðu gefið Indipendiente lokafrest. "Við höfum sagt þeim að við munum ekki bíða mikið lengur, það styttist í tímabilið hér heima og við viljum klára þessi mál sem fyrst. Kerfið þarna úti er seinvirkara en hérna heima og því hefur þetta tafist." Aðspurður sagðist hann gera sér vonir um að þarna væru á ferðinni sterkir leikmenn. "Þetta eiga að vera hörkuleikmenn og miðjumaðurinn á að vera svakalega öflugur leikmaður," sagði Ásgeir. Hann sagði að liðið væri einnig að skima eftir leikmönnum í Englandi. "Við höfum verið að skoða markaðinn í Englandi en samt ekki af neinni alvöru þar sem við vildum ekki vera með of mikið á okkar könnu og höfum því einbeitt okkur að Argentínumönnunum," sagði Ásgeir sem útilokaði ekki komu leikmanns frá Englandi ef mál Argentínumannanna myndu ekki skýrast. Mál framherjans Björns Viðars Ásbjörnssonar eru einnig að skýrast og sagði Ásgeir að það væru miklar líkur á því að Björn myndi leika með Fylki í sumar. "Það var búið að ákveða að það yrði sest niður með Birni þegar hann kæmi heim frá útlöndum og það gerðum við og ég tel miklar líkur á því að hann leiki með okkur í sumar," sagði Ásgeir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×