Sport

Bestir þrátt fyrir tapið

Heimir Guðjónsson, fyrirliði FH, var að sjálfsögðu ekki sáttur við það að tapa síðasta heimaleik sumarsins í gær. "Það hefði auðvitað verið gaman að enda þetta á sigri en við getum huggað okkur við það að við erum samt langbestir." Fylkismenn mættu ákveðnir til leiks í gær og ógnuðu marki FH í nokkur skipti á fyrstu mínútunum, án þess þó að skapa mikla hættu upp við mark Íslandsmeistarana. En eftir því sem leið á komst FH betur inn í leikinn. Ólafur Páll Snorrason var ógnandi á hægri kantinum auk þess sem Heimir Guðjónsson dreifði spilinu vel í sínum síðasta leik í Kaplakrika. Helgi Valur Daníelsson var áberandi í sóknarleik Fylkis og átti hann heiðurinn af besta færi Árbæjarliðsins í fyrri hálfleik en þá tókst honum að vinna boltann af Tommy Nielsen og sendi hann rakleiðis á Hauk Inga, sem var óvaldaður inn í vítateig, en hann missti klaufalega af boltanum og úr færinu varð því ekkert. En á 40.mínútu dró til tíðinda. Atli Viðar Björnsson vann Hrafnkel Helgason í kapphlaupi um boltann vinstra megin, óð inn í vítateiginn og þrumaði boltanum í þaknetið. Vel gert hjá Atla. Fylkismenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og voru sprækari á fyrstu mínútum hálfleiksins. Á 60.mínútu jafnaði Daninn Peter Tranberg metin með skoti af stuttu færi eftir góðan undirbúning Jóns Hermannssonar. Mikill ákafi færðist í leikmenn beggja liða við þetta. Viktor Bjarki Arnarsson var líflegur á hægri kantinum hjá Fylki og fór oft illa með Frey Bjarnason, bakvörð FH. FH sótti síðan í sig veðrið en tókst ekki að brjóta sterka vörn Fylkis á bak aftur. Á 88. mínútu tryggði svo Peter Tranberg Fylki sigurinn eftir klaufaleg mistök í vörn FH. Tranberg komst í kjölfarið einn í gegnum vörnina og nýtti færið vel. Staðan því orðin 2-1 Fylki í vil. Jón Þorgrímur Stefánsson var svo rekinn af velli fyrir að tækla Bjarna Þórða Halldórsson, markvörð Fylkis illa. Valur Fannar Gíslason, fyrirliði Fylkis, var ánægður með sigurinn. "Við spiluðum vel í dag og áttum þetta skilið. Við ætluðum okkur ekki að treysta á neitt annað en okkur sjálfa og þessi sigur var einstaklega góður hjá okkur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×