Erlent

Stóra samsteypa hefst handa

Kanslaraskiptin handsöluð.  Gerhard Schröder og Angela Merkel handsala kanslaraskiptin við athöfn í kanslarahöllinni í Berlín í gær.
Kanslaraskiptin handsöluð. Gerhard Schröder og Angela Merkel handsala kanslaraskiptin við athöfn í kanslarahöllinni í Berlín í gær.

Angela Merkel tók við embætti í gær sem áttundi kanslarinn í sögu þýska Sambands­­lýðveldisins. Hún er fyrsta konan sem stýrir ríkisstjórn Þýskalands, en hún fer fyrir samsteypustjórn sem margir spá að verði erfitt að halda samstiga.

Verkefnin sem bíða hennar eru stór; að stýra mesta efnahagsveldi Evrópu út úr stöðnun síðastliðinna ára er eflaust það vandasamasta. Merkel, sem er 51 árs eðlisfræðingur frá Austur-Þýskalandi, leysir Gerhard Schröder af hólmi, en síðastliðin sjö ár stýrði hann samsteypustjórn jafnaðarmanna og græningja.

Hann sagði af sér þingmennsku strax í gær. Merkel hlaut 397 atkvæði í kanslarakjörinu á Sambandsþinginu, en það þýðir að 51 þingmaður stjórnarflokkanna – kristilegra demókrata og jafnaðarmanna – kaus hana ekki. Hún þurfti hins vegar aðeins 308 atkvæði til að ná kjöri. 202 þingmenn greiddu atkvæði á móti henni, 12 sátu hjá.

Atkvæðagreiðslan var leynileg svo að ekki var víst hverjir úr stjórnarliðinu hefðu "svikið lit", en líklegast voru flestir "liðhlaupanna" úr röðum jafnaðarmanna. Talsmenn þeirra sóru þó að ekkert myndi skorta á stuðning þingflokksins við stjórnar­samstarfið og kanslarann.

Eftir að hafa svarið embættiseiðinn sagði Merkel að Þjóðverjar biðu þess óþreyjufullir að nýja ríkis­stjórnin hæfist handa eftir margra mánaða óvissuskeið. "Væntingar fólks eru miklar," sagði hún.

Nýi kanslarinn þakkaði jafnframt fyrirrennara sínum fyrir það sem hann hefði gert fyrir Þýskaland og vísaði þar til viðleitni hans til að hrinda í framkvæmd umbótum á velferðarkerfinu og stuðla að eflingu efnahagslífsins. Lýsti hún því yfir að nýja stjórnin myndi byggja á þeim áföngum að þessu marki sem hann hefði náð.

Merkel þarf nú að glíma við að fá hina ósamstæðu stjórn sína til að grípa til ráðstafana sem skila áþreifanlegum árangri í að ná niður atvinnuleysi og auka hagvöxt. Hún hefur líka við snúin mál að glíma í utanríkismálum, svo sem að koma tengslunum við bandamanninn stóra vestanhafs í betra horf.

Meðal fyrstu staðanna sem Merkel hyggst heimsækja eftir embættistökuna er Hvíta húsið – en þó ekki fyrr en eftir viðkomu í Lundúnum og París.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×