Erlent

Mistök að grípa til vopna

Það voru mistök hjá Palestínumönnum að grípa til vopna gegn Ísraelum, sagði Mahmoud Abbas, leiðtogi Frelsissamtaka Palestínu, í viðtali við blaðið Asharq al-Awsat, sem gefið er út á arabísku í London. Hann sagði að Palestínumenn ættu að beita sér gegn hernámi Ísraela án þess að grípa til ofbeldis. Abbas sagði mikilvægt að hafa andófið gegn hernáminu vopnlaust þar sem það væri lögmætur réttur fólks til að tjá andstöðu sína við hernámið. "Notkun vopna er skaðleg og henni verður að linna," sagði hann. Árásir Palestínumanna á Ísrael eru skaðlegar fyrir orðspor og málstað Palestínumanna, sagði Abbas sem hefur löngum verið andvígur vopnaðri baráttu gegn Ísraelum og talið aðrar aðferðir líklegri til að skila árangri. Hann sagði jafnframt í viðtalinu að eitt helsta verkefni Palestínustjórnar væri að endurskipuleggja palestínskar öryggissveitir, þær væru núna í molum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×