Erlent

Harmleikur á hamfarasvæðunum

Nú er orðið ljóst að á þriðja tug þúsunda fólks lét lífið í jarðskjálftanum við Indlandshaf og flóðunum sem honum fylgdu. Enn er ekkert vitað um afdrif fjölda fólks og því er viðbúið að tala látinna muni enn hækka. Neyðaraðstoð hefur borist víða að en mikið verk er óunnið. Jarðskjálftinn sem varð skammt vestur af Súmötru var enn stærri en fyrstu mælingar sýndu. Vísindamenn segja hann nú hafa verið 9,0 stig á Richter, þann fjórða stærsta síðan mælingar hófust. Sjónarvottar hafa lýst því hvernig sjórinn sogaðist undan ströndunum rétt áður en sex metra hár ölduveggurinn ruddist upp á landið og eyðilagði allt sem fyrir varð. Viðurstyggð eyðileggingarinnar blasti alls staðar við á hamfarasvæðunum í gær. Lík íklædd sundfatnaði lágu víða á baðströndum Taílands í gær og nályktina lagði yfir margar strandbyggðir Indónesíu því ekki var hægt að leggja hina látnu til grafar í forugan jarðveginn. Verst var ástandið á Srí Lanka þar sem ríflega þrettán þúsund manns létu lífið og í það minnsta ein milljón missti heimili sín. Í Indónesíu telja menn að hátt í fimm þúsund manns hafi farist og ein milljón sé heimilislaus. Flóðbylgjan barst alla leið til Sómalíu þar sem hundruð manna drukknuðu, einkum fiskimenn á trékænum. Skelfilegar frásagnir hafa borist af örlögum fólks sem lenti í flóðunum. Flóðbylgjan hrifsaði sex mánaða gamalt ástralskt barn úr örmum föður síns á baðströnd á Phuket-eyju, skammt undan ströndum Taílands. 150 börn voru lögð í fjöldagröf í bænum Cuddalore í Indlandi. Foreldrar þeirra fylgdust grátandi með þegar jarðýtur mokuðu leðjunni yfir lík barnanna. Mikið öngþveiti hefur skapast á flugvöllum á vinsælum ferðamannastöðum á þessum slóðum en fjölda erlendra ferðamanna er enn saknað. Hjálparsamtök óttast mjög að sjúkdómar á borð við malaríu og kóleru muni breiðast hratt út enda er hreint vatn af skornum skammti. Neyðaraðstoð hefur borist víða að og hafa ríkisstjórnir og hjálparstofnanir lofað veglegum fjárstuðningi þeim til handa sem verst hafa orðið úti. Þar á meðal íslenska ríkisstjórnin. Mannfall af völdum hamfaranna - Srí Lanka:13.000 látnir- Indónesía:4.500 látnir- Indland:3.500 látnir- Taíland:839 látnir - Malasía: 44 látnir - Maldíveyjar: 32 látnir - Myanmar: 30 látnir - Bangladess: 2 látnir  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×