Erlent

Mannslífum mátti bjarga

Embættismenn í ríkjunum við Bengalflóa viðurkenndu í gær að ef þau hefðu gefið út viðvaranir um yfirvofandi flóð í kjölfar jarðskjálftans á annan í jólum hefði mátt bjarga mörg þúsund mannslífum. Þeir segjast ekki geta sett upp viðeigandi viðvörunarbúnað vegna fjárskorts. Stjórnvöld í Indónesíu og víðar hafa sætt vaxandi gagnrýni fyrir að hafa ekki varað við flóðbylgjum þar sem þær brotnuðu á landi nokkru eftir að sjálfur skjálftinn varð. Þannig tók flóðanna ekki að gæta í Taílandi fyrr en klukkutíma eftir skjálftann og Indverjar og Sri Lankabúar urðu einskis varir fyrr en tveimur og hálfri stundu eftir að skjálftinn varð. Ef íbúar þessara landa hefðu verið varaðir við í tíma hefði mátt bjarga mörgum mannslífum. Háttsettur veðurfræðingur í Taílandi gagnrýndi yfirvöld harðlega í gær. "Vissulega gera jarðskjálftar ekki boð á undan sér en hægt er að spá fyrir um flóðbylgjur í kjölfar þeirra," sagði hann við fjölmiðla. Stjórnvöld í Indónesíu sögðust harma mistökin en bentu á að öll mælitæki skorti og ekki útlit fyrir að þau yrðu keypt á næstunni vegna fjárskorts.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×