Erlent

Júsjenko sigurvegari kosninganna

Viktor Júsjenko bar sigurorð af keppinaut sínum, forsætisráðherranum Viktor Janúkovítsj, í forsetakosningum í Úkraínu í gær. Svo virðist sem þessi umferð hafi farið fram án kosningasvindls. Sigur Júsjenkós kom ekki á óvart; skoðanakannanir, bæði fyrir þessa umferð sem og þá síðustu, bentu eindregið til þess að hann nyti meiri stuðnings en Janúkovítsj. Síðast voru brögð í tafli sem leiddu til þess að Hæstiréttur Úkraínu ógilti niðurstöðuna og skipaði fyrir um endurtekningu. Óvissan fólst því einkum í því hvort að reynt yrði að beita brögðum á ný. Talsmenn ÖSE segja svo ekki hafa verið og þegar níutíu og fimm prósent atkvæða höfðu verið talin sögðu talsmenn yfirkjörstjórnar að forskot Júsjenkos væri svo mikið að Janúkovítsj gæti ekki unnið það upp. Þá var Júsjenko með 53 prósent atkvæða en Janúkovítsj 44 prósent. Talsmenn hans voru þó á því að ekki væru öll kurl komin til grafar og að enn ætti eftir að skýra ýmislegt. Til að mynda hefðu þrjár milljónir ólöglegra atkvæða verið greiddar og hugsanlega yrði leitað til dómstóla vegna þeirra. Júsjenko sagði í nótt að Úkraína hefði verið sjálfstæð í fjórtán ár en fyrst nú væri hún frjáls. Hann hefur meðal annars heitið því að taka upp nánari samskipti við Evrópusambandið og Vesturlönd, nokkuð sem komið hefur illa við kaunin á Rússum. Júsjenko segir einnig nauðsynlegt að hreinsa til hjá því opinbera þar sem spilling og sóun séu áberandi. Efnahagsmál verða jafnframt áberandi á dagskránni. Júsjenko hefur sagt að hann muni áfram rækta tengslin við stjórnvöld í Moskvu en stór hluti Úkraínumanna er af rússnesku bergi brotinn og lítt hrifinn af umbótahugmyndum Júsjenkos. Þó að kjör Júsjenkos sé afgerandi er hann þó ekki einráður og verður valdaminni en Leonid Kútsma, fráfarandi forseti, hefur verið. Hann mun því meðal annars þurfa að vinna þingið á sitt band til að geta hrint fyrirætlunum sínum í framkvæmd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×