Erlent

17 þúsund látnir og fer fjölgandi

Yfir sautján þúsund manns hafa látist í kjölfar jarðskjálftans í Suðaustur-Asíu í gær. Skjálftinn og flóðbylgjurnar sem hann olli eru mesta náttúruhamfarir á þessari öld. Búast má við því að tala látinna haldi áfram að hækka. Hundruð þúsundir manna hafa misst heimili sín og óttast menn nú að hungursneyð og farsóttir kunni að brjótast út á svæðinu. Alþjóðlegt hjálparstarf hófst strax í gær á hamfarasvæðinum en svæðin eru mjög fjölmenn. Hermenn og hjálparstarfsmenn vinna hörðum höndum að því að hlúa að slösuðum á svæðunum og eru spítalar yfirfullir af fólki. Skjálftinn átti upptök sín skammt vestur af eyjunni Súmötru í Indónesíu. Á þeim slóðum mætast jarðflekar þar sem svonefndur Indó-Ástralíufleki gengur undir Evrasíuflekann með tilheyrandi umbrotum. Skjálftinn var 8,9 stig á Richter-kvarða og námu jarðskjálftamælar hann um allan heim, meðal annars hér á landi. Við jarðskjálftann lyftist sjávarbotninn þannig að gífurlegar flóðbylgjur mynduðust og fóru um sex metra háar, sumar allt að tíu metrar, á ógnarhraða yfir Indlandshaf. Þær brotnuðu svo á strandlengjum landanna beggja vegna Bengalflóa. Í Indónesíu, Sri Lanka og á Indlandi skoluðust heilu þorpin á braut, sóldýrkendur bárust á haf út og snorkkafarar lömdust yfir kóralrif í túristalendum Taílands. Á Maldíveyjum, eyjaklasa suður af Indlandi sem er um 2.500 kílómetra frá upptökum skjálftans, varð mikið tjón en eyjarnar rísa hvergi hærra en 1,8 metra yfir sjávarmál. Neyðarvakt var komið á í utanríkisráðuneytinu í gær vegna íslensks ferðafólks sem er á ferð í Asíu og setti fjöldi ættingja sig í samband við ráðuneytið til þess að spyrjast fyrir um afdrif Íslendinga sem staddir eru á hamfarasvæðunum. Ekki er vitað til þess að Íslendingar hafi skaðast í flóðunum, en í gærkvöld hafði þó ekki náðst í nokkurn hóp fólks ennþá. Á lista ráðuneytisins yfir Íslendinga á þessum slóðum voru um 65 manns. Símasamband við hamfarasvæðin var stopult, en í utanríkisráðuneytinu fengust þær upplýsingar að reynt yrði að aðstoða fólk eftir megni í gegnum ræðismenn á viðkomandi stöðum eða norrænu utanríkisþjónustuna. Fregnir bárust þó af því að stöku ferðamenn hafi verið hætt komnir og mörgum var mjög brugðið. Talsvert er af erlendum ferðamönnum á skjálftasvæðunum og er fjölmargra saknað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×