Skoðun

Hagvöxtur og veðurblíðan

Þjóðarbúskapurinn - Katrín Ólafsdóttir Góða veðrið síðustu daga hefur að sjálfsögðu glatt alla, er ekki svo? Jú, allavega gleðjast sumir búðareigendur mjög, þ.e. þeir sem selja stuttbuxur og sólarvörn svo maður tali ekki um þá sem selja ísinn. Eftirspurn eftir þessum vörum hefur örugglega aukist til muna síðustu daga. Aðsókn að sundstöðum landsins hefur sjaldan verið meiri. Á hinn bóginn gleðjast þeir búðareigendur væntanlega minna sem selja vörur eins og regnfatnað. Sömu sögu má væntanlega segja af búðareigendum sem selja hluti eins og t.d. húsbúnað ýmiss konar, því hver nennir að kaupa slíkt í þessari veðurblíðu? Þess má því vænta að eftirspurn eftir þessum vörum hafi dalað heldur í góða veðrinu. Frést hefur af fyrirtækjum sem hafa lokað vegna veðurs. Starfsmenn halda glaðir út í sólskinið og viðskiptavinir sýna þolinmæði og koma bara aftur síðar. Eða er einhver leið til að amast við slíku? Jú, ef allt athafnalíf lognast út af í einhvern tíma á meðan landsmenn sleikja sólskinið fer þess fljótt að gæta í landsframleiðslunni og kemur því fram í lægri hagvexti en ella. En er eitthvað slæmt við minni hagvöxt vegna veðurs? Ef hagvöxtur væri lítill, þá væri það væntanlega ekki æskilegt. Það er hins vegar spáð miklum hagvexti á þessu ári, eða 4,25% samkvæmt spá Seðlabankans, og verðbólga er nálægt efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs, eða 3,7% við síðustu mælingu. Þetta hvort tveggja bendir til þess að eftirspurnarspenna sé að myndast í þjóðarbúskapnum, þ.e. eftirspurnin er meiri en sem nemur aukinni innlendri framleiðslu. Við núverandi aðstæður í þjóðarbúskapnum er því varla slæmt ef landsframleiðslan er undir framleiðslugetu í nokkra daga. Hitinn síðustu daga hefur því væntanlega leitt til þess að örlítið hefur kólnað undir þjóðarbúskapnum.



Skoðun

Sjá meira


×