Erlent

Sjúkdómar geta lagt eins marga

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin óttast að sjúkdómar í kjölfar hamfaranna í Asíu geti lagt eins marga að velli og hamfarirnar sjálfar. David Nabarro, sem er háttsettur innan stofnunarinnar, segir það skipta gríðarmiklu máli að koma lyfjum, læknishjálp og vatni til hamfarasvæðanna sem fyrst, áður en sjúkdómar ná að gjósa upp, því allt eins margir gætu látist af þeim eins og af hamförunum. Tala látinna vegna hamfaranna í Asíu er komin upp í 55 þúsund og er enn óttast að hún kunni að hækka. Ekkert hefur enn heyrst af tólf Íslendingum sem vitað er að voru á þessum slóðum. Um er að ræða fimm manna fjölskyldu sem var á Balí og sjö manns í Taílandi. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er ekki ástæða til að ætla að eitthvað hafi komið fyrir fólkið en ekki hefur náðst samband við það. Íslenska utanríkisráðuneytið varar Íslendinga við að fara til Taílands, Indlands, Indónesíu og auðvitað Srí Lanka og Maldíveyja, en á tveimur síðastnefndu stöðunum hefur neyðarástandi verið lýst. Klukkan 18 í kvöld fer flugvél frá Flugleiðum fyrir sænsk stjórnvöld til Taílands að sækja sænska ferðamenn þar. Með vélinni fara tíu tonn af vatni frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar og teppi sem Rauði kross Íslands sendir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×