Erlent

Lík brennd eða sett í fjöldagrafir

Tala þeirra sem létust í jarðskjálftanum norður af Súmötru annan í jólum fer sífellt hækkandi. Mörg þúsund lík eru brennd eða komið fyrir í fjöldagröfum án þess að kennsl hafa verið borin á þau. Eva Klonowski réttarmannfræðingur segir nauðsynlegt að koma líkunum fyrir sem fyrst en er hrædd um að ekki séu gerðar ráðstafanir til hægt verði að bera kennsl á þá sem létust. Rotnun hefst eftir nokkra klukkutíma Hitinn á hamfarasvæðinu er stórt vandamál. Líkin byrja að rotna eftir nokkra klukkutíma þar sem hitastig á svæðinu er í kringum þrjátíu stig. Losna þarf við líkin sem fyrst af almennum svæðum vegna lyktar og hversu hættuleg þau geta verið fólki vegna smithættu. Hætt er við að bakteríur berist frá líkunum í fólk með vatni eða flugum. Best væri að koma líkunum fyrir í krufningafrysti en vegna fjölda látinna er sá möguleiki ekki fyrir hendi. Þess í stað þarf að koma líkunum fyrir í fjöldagröfum eða brenna þau. Engin undirbúningsvinna Eva, sem unnið hefur við að bera kennsl á fólk í fjöldagröfum í Bosníu frá árinu 1996, segist hrædd um að engin undirbúningsvinna til að bera kennsl á þá látnu fari fram. Hægt væri að gera ýmislegt eins og að taka andlitsmyndir af líkunum og persónulegum munum áður en þeim er komið fyrir í fjöldagröfum. Eins væri mjög gagnlegt að lífssýni væru tekin og geymd til að hægt væri að vinna úr þeim síðar með DNA-greiningu. Erfitt er að bera kennsl á þá látnu margra hluta vegna. Mörg líkin hafa borist langa leið með sjó og margir þeirra látnu eru ferðamenn sem eru langt frá sínum heimkynnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×