Erlent

Vistir safnast upp á flugvöllum

Hjálparsamtök og erlend ríki kappkosta við að senda mat og lyf til hamfarasvæðanna við Indlandshaf, en dreifing vistanna er óskilvirk vegna samgönguerfiðleika og birgðirnar safnast upp á flugvöllum. Tafirnar eru þegar farnar að auka á hörmungar flóðsins í Indónesíu þar sem hreint vatn og matur er af skornum skammti. Yfirvöld á Srí Lanka segja að mislingar og niðurgangur hafi gert vart við sig og Indverjar eru byrjaðir að bólusetja tugþúsundir manna. Jan Egeland, aðgerðastjóri neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir að víða geti það tekið allt að því tvo til sex sólarhringa þar til hjálp berst fólki sem þurfi á henni að halda ekki seinna en í dag eða í gær. "Ég held að fólk eigi eftir að verða mjög reitt á næstu dögum og vikum," segir hann. Hjálparsamtök eru flest vön að vinna á einu eða tveimur hamfarasvæðum í einu en nú er um tólf stór svæði að ræða. Óttast er að fjöldi látinna sé þegar orðinn eitt hundrað þúsund en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að sú tala geti tvöfaldast ef farsóttir breiðast út. "Það er allt í rúst," segir Achmad Hiayat hershöfðingi í Indónesíska hernum. "Sjúkrahúsin og neyðarhjálpin eru í algjörri óreiðu. Hjálparstarfsmenn eru velkomnir en þeir verða að útvega sér sín eigin farartæki." Indónesíski herinn reynir að senda vistir til þeirra staða sem ekki er hægt að nálgast landleiðina en vitað er til að matvæli sem var varpað úr flugvélum lentu þar sem fólk náði ekki til þeirra og fóru til spillis. Sumir óttast að spilltir embættismenn muni reyna að hagnast á ástandinu og muni reyna að draga undan neyðarbirðgðunum til eigin afnota. Ríkisstjórnir um heim allan hafa lagt fram um fimmtán milljarða króna til aðstoðar við fólks á hamfarasvæðinu við Indlandshaf. Rauði krossinn telur sig þurfa um þrjá milljarða króna til björgunar- og uppbyggingarstarfs á flóðasvæðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×