Erlent

Hátt í 50 þúsund hafa látist

Hátt í fimmtíu þúsund manns hafa farist í náttúruhamförunum í Asíu og er óttast við að sú tala eigi enn eftir að hækka. Allar tölur eru enn á reiki en stjórnvöld á hamfararsvæðunum telja að allt að 57 þúsund gætu hafa týnt lífi. Enn er ekki vitað um afdrif 15 Íslendinga sem vitað er að voru á þessum slóðum. Íslenska utanríkisráðuneytið varar við ferðalögum til hamfarasvæðanna í Suðaustur-Asíu og sérstaklega ákveðinna svæða á Taílandi, Indlandi, Srí Lanka, Maldíveyjum og í Indónesíu. Varað er við ferðalögum til suðvesturhluta Taílands, þar með talið Phuket, Krabi, Phi Phi eyju, sem og annarra eyja í nágrenninu. Ferðalöngum til annarra svæða í Taílandi er ráðlagt að kynna sér vel aðstæður, m.a. með því að hafa samband við ferðaskrifstofur og hótel, sem og að afla sér með öðrum hætti nákvæmra upplýsinga um hvort öruggt sé að ferðast til viðkomandi áfangastaðar. Varað er við ferðalögum til Norður-Súmötru í Indónesíu og þá sérstaklega til Aceh-héraðs. Ferðalöngum til annarra svæða í Indónesíu er ráðlagt að kynna sér rækilega aðstæður og ráðleggingar þarlendra stjórnvalda áður en lagt er af stað. Utanríkisráðuneytið varar við ferðalögum til suðausturstrandar Indlands, og þá sérstaklega til Tamil Nadu héraðs, Andra Pradesh og til eyjanna Nicobar og Andaman. Stjórnvöld í Srí Lanka hafa lýst yfir neyðarástandi og ráðleggur utanríkisráðuneytið því íslenskum ríkisborgurum frá því að ferðast þangað nema brýna nauðsyn beri til. Sama á við um ferðalög til Maldíveyja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×